Þrír af fjórum verða rafbílar

Volkswagen e-Golf frumsýndur hjá Heklu.
Volkswagen e-Golf frumsýndur hjá Heklu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ljóst mun vera nú að sala á rafbílum slær öll met í Noregi í ár.  Og engar horfur eru á að úr henni muni raga á næsta ári, 2020, þvert á móti.

Fjöldi nýrra og áhugaverðra rafbíla er væntanlegur á götuna á nýju ári og með þeim verður framboð á rafbílum enn breiðara. 

Volkswagen hefur um árabil verið söluhæsta bílmerkið í Noregi og nú hefur fyrirtækið birt söluvæntingar sínar fyrir 2020. Miðar hann við að selja samtals 25.000 bíla í landinu á næsta ári, að rafbílum meðtöldum. Með tilliti til þess að heildarmarkaðurinn fyrir nýja bíla er um 150.000 eintök þá ætlar VW sér 16,7% af honum.

Þrír af hverjum seldum VW í Noregi 2020 verða hreinir rafbílar, eða 18.500 eintök. Til viðbótar væntir þýski bílsmiðurinn þess að selja 1.900 tengiltvinnbíla og 4.600 bíla með brunavél, þ.e. bensín- eða dísilbíla.

Bindur VW mikið við hinn nýja ID.3 bíl og segist vona að hann verði uppistaðan í rafbílasölunni.  En fyrirtækið væntir einnig góðrar sölu á bæði smábílnum e-up! með auknu drægi og e-Golf. Fyrstu 11 mánuði ársins hefur hann selst í 8.293 eintökum í Noregi sem er 41% aukning frá í fyrra.

mbl.is