Dæmigerður eigandi rafbíls í Frakklandi er 56 ára karl

Franski rafbíllinn Reault Zoe.
Franski rafbíllinn Reault Zoe.

Eitt og annað má setja inn í hermilíkön til hvers konar mælinga. Er þannig hægt að fá út hin ýmsu meðaltöl. Bílablaðið Auto Plus í Frakklandi hefur gert úttekt á rafbílaeign en það kallar á umtalsverða útreikninga því alls eiga 88.928 manns rafbíla þar í landi.

Niðurstaðan er þverskurðarmynd sem leiðir í ljós hver meðaltalseigandi rafbíls er. Meðalaldur hans reyndist vera 56 ára manneskja sem býr í þéttbýli, að 85% leyti karlmaður.

Í heild munu rafbílar, að tengiltvinnbílum meðtöldum, á götum Frakklands telja 203.910 eintök. Eru 147.995 þeirra í eigu einstaklinga, þar af eru 59.067 notaðir í atvinnuskyni.

Til persónulegra nota eru rafbílarnir því rétt um 90.000 talsins sem er ekki nema um 0,3% af heildarfjölda einstaklingsbíla, sem telja 32,7 milljónir bíla.

Meðalnotkun franskra rafbíla reyndist vera 8.664 kílómetrar á ári. Er það svo gott sem sama og á við um notkun bensínbíla, en samkvæmt gögnum frönsku hagstofunnar er meðalnotkun þeirra 9.000 km á ári. Dísilbíla nota franskir einstaklingar enn sem komið er meir, eða 15.900 km á ári.

Loks eiga 64% fjölskyldna með rafbíl sem heimilisbíl að minnsta einn bíl til viðbótar sem brennir jarðeldsneyti. Meðal losun seinni bílsins á gróðurhúsalofti reyndist vera 143 g/km. Aukabílarnir skiptust þannig að 56% voru dísilbílar og 39% bensínbílar.

Renault Zoe er algengasti rafbíllinn í Frakklandi með um 75% hlutdeild í markaðinum. Skerfur Citroën C-Zero/Peugeot iOn í markaðinum er 12% og Nissan Leaf 9%. Um helgar er hinn bíllinn meira brúkaður en 37% þeirra reyndust Renault, 18% Peugeot, 14% Citroën, 6% Volkswagen og 6% Dacia. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka