Volvo var vinsælasti lúxusbíllinn hér á landi á nýliðnu ári, 2019. Var hlutdeild Volvo á einkabílamarkaði lúxusbíla 35,2%.
Á heildarbílamarkaði lúxusbíla bar Volvo höfuð og herðar yfir aðra lúxusbíla með 29,2% hlutdeild á árinu sem var að líða sem er mesta hlutdeild á einu markaðssvæði á heimsvísu, að sögn Brimborgar, umboðsaæia fyrir Volvo á Íslandi.
Volvo Cars hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár á lúxusbílamarkaði á heimsvísu og hefur slegið sölumet sex ár í röð. Árið 2019 náði Volvo Cars að selja yfir 700.000 bíla í fyrsta sinn í 93 ára sögu sinni eða 705.452 bíla sem er 9,8% aukning frá árinu áður. Jók sænski bílsmiðurinn markaðshlutdeild sína á öllum mörkuðum.
„Vinsældir Volvo á Íslandi er þar engin undantekning því hlutdeild Volvo af lúxusbílamarkaði hér á landi hefur verið einstök síðustu árin,“ segir í tilkynningu. Vinsælustu Volvo bílarnir eru jepparnir XC90, XC60 og XC40.