Þarfasti þjónninn

Velja þarf stærð og gerð vélsleða með tilliti til þess …
Velja þarf stærð og gerð vélsleða með tilliti til þess hvernig á að nota hann. Guðmundur við vígalegan vélsleða í sýningarsalnum.

Björgunarsveitir, bændur, orkufyrirtæki og skógræktarfélög eru meðal þeirra sem reiða sig á vélsleða, fjórhjól og sexhjól. Með þessi tæki, rétt eins og mótorhjólin, er góð regla að byrja smátt og stökkva ekki strax á bak vélsleða eða fjórhjóli með mjög öfluga vél.

Vélsleðar, fjórhjól og sexhjól hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem ómissandi vinnutæki. Guðmundur Skúlason, verslunarstjóri Storms á Kletthálsi, segir t.d. bændur, björgunarsveitafólk, veiðimenn og landverði þurfa nauðsynlega á þessum farartækjum að halda og má áætla að um 40% þeirra sem kaupa fjórhjól eða vélsleða séu fyrst og fremst að leita að vinnutæki frekar en leiktæki.

„Einn bóndinn komst þannig að orði við mig að það væri jafnmikilvægt að eiga gott fjórhjól og að eiga til mjólk í ísskápnum,“ segir Guðmundur. „Þá hafa Landsvirkjun, skógræktarfélögin og jarðverktakar tekið vélsleða, sexhjól og fullbúna „buggy“-bíla í sína þjónustu og nota t.d. til að sinna viðhaldi á háspennulínum. Það gildir um buggy rétt eins og fjórhjól og sexhjól að komast má nánast hvert sem er á farartækinu en í buggy geta tveir setið saman hlið við hlið, eru varðir af veltigrind, í skjóli frá veðri og vindum og geta m.a.s. verið með miðstöð svo þeim verði ekki kalt.“

Spurður um muninn á eiginleikum fjórhjóla og sexhjóla segir Guðmundur að sexhjólin ráði við meira krefjandi aðstæður og hafi líka þann kost að skilja eftir sig minni ummerki. „Þannig er búið að setja það í lög að sexhjól eru einu farartækin sem nota má við hreindýraveiðar, svo að sem minnst sjái á landslaginu eftir að veiðimaðurinn er farinn aftur heim til sín með fenginn.“

Fjór- og sexhjól eru afskaplega þörf farartæki en Guðmundur bendir á að þegar snjórinn nær ákveðinni dýpt drífi fjór- og sexhjólin skammt. Íslenskar aðstæður kalli því á að eiga líka vélsleða, ellegar fjárfesta í beltabúnaði sem setja má undir fjór- og sexhjólin: „Það fer eftir notkun hvort hentar betur að eiga beltabúnað eða sér vélsleða,“ segir hann og minnir líka á að framleiðendur bjóði upp á vélsleða, fjór- og sexhjól sem hafa verið sniðin gagngert að vinnu á meðan aðrar útgáfur henti meira til sports. „Það má t.d. kaupa sérstaka vinnu-vélsleða sem eru gerðir til að draga þunga hluti og hafa bæði hátt og lágt drif. Breiðbelta sleðarnir þykja henta betur sem vinnusleðar, á meðan þeir stuttu eru betur sniðnir að því að gera alls kyns kúnstir í snjónum. Millilangir sleðar eru síðan valkostur þeirra sem vilja tæki sem bæði ræður við létta vinnu í brekkunum og býður líka upp á fjör.“

Halda námskeið fyrir kaupendur

Eins og með öll vélknúin tæki þarf að umgangast vélsleða, fjór- og sexhjól rétt og vanda valið þegar kemur að kaupunum. Stormur heldur sérstök námskeið þar sem farið er yfir aðalatriðin hvað kemur að viðhaldi og notkun tækjanna en Guðmundu segir framleiðendur hafa unnið jafnt og þétt að því að lágmarka þörfina fyrir viðhald og viðgerðir. „Vitaskuld fer viðhaldsþörfin eftir notkun, og þeir sem eru t.d. mikið að aka yfir grófa torfæru reyna meira á tækið þannig að slit eykst og meiri hætta verður á að eitthvað skemmist eða gefi sig.“

Sinna þarf olíuskiptum í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda og þá þurfa vélsleðar, fjór- og sexhjól að koma reglulega í skoðun. Þykir mörgum ómissandi að eiga góða kerru, bæði til að koma tækinu á verkstæði ef svo ber undir, en líka til að ferja það á milli staða ef ætlunin er að halda af stað í ævintýri í öðrum landshluta.

Hjá stormi er Polaris í forgrunni, bæði í fjórhjóla- og vélsleðadeildinni. Guðmundur segir ekki hægt að nefna nein risavaxin framfarastökk á undanförum árum heldur batni farartækin jafnt og þétt. „Það sem við sjáum m.a. breytast er að tækin verða léttari en á sama tíma sterkari og með betri fjöðrun, samhliða því að þau þurfa minna viðhald.“

Ekki fara strax í mesta aflið

Aðspurður hvaða mistök algengt er að fólk geri við kaup á vélsleðum, eða fjór- og sexhjólum segir Guðmundur að það sé ágætt að fá fyrst söluskoðun á tækinu, ef það er notað, til að forðast að lenda síðar í vandræðum vegna slits og skemmda. Starfsfólk Storms er líka alltaf boðið og búið að veita gestum og gangandi ráðgjöf um hvers konar tæki þeir ættu að fá sér miðað við óskir og þarfir.

Þá vill Guðmundur meina að sama góða reglan gildi um vélsleða og fjórhjól og gildir um mótorhjól; að fólk eigi að fikra sig smám saman upp í kröftugri tæki, frekar en að stökkva strax í fyrstu atlögu á það stærsta og öflugasta sem veskið leyfir. „Ég er þakklátur fyrir það uppeldi sem ég fékk hjá pabba mínum sem leyfði mér ekki að kaupa öflugri vélsleða fyrr en ég gat gert allt það sem hægt var á minna öflugum vélsleðum. Fékk ég fyrst 38 hestafla sleða, og þurfti að sýna að ég gæti notað hann rétt áður en mér var treyst fyrir 70 hestöflum, og þannig koll af kolli. Það gerir fólk að betri ökumönnum að byrja á kraftminni tækjum, en Íslendingum hættir til að vilja alltaf það öflugasta sem þeir geta fundið. Fyrir vikið er t.d. mjög lítið flutt inn af aflminni vélsleðum, þó að þeir séu að mörgu leyti frábær farartæki og myndu henta mörgum miklu betur en öflugustu sleðarnir á markaðinum,“ segir Guðmundur og bætir við að fólk sé ekki að gera sér neinn greiða með ofuráherslu á hestöfl, þegar kemur að vélsleðakaupum: „Það sem skiptir mun meira máli er hvernig vélsleðinn lætur að stjórn, og hversu vel hann fjaðrar. Aflið kemur svo ekki fyrr en í þriðja sæti, og á það sama við um fjórhjól, sexhjól og buggy-bíla.“

Þau fjórhjól sem framleidd eru í dag þykja frekar þægileg …
Þau fjórhjól sem framleidd eru í dag þykja frekar þægileg í umgengni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: