Raðrispari fyrir dóm fyrir að skemma bíla

Illa útleikin vélarhlíf sem orðið hefur fyrir barðinu á rispara.
Illa útleikin vélarhlíf sem orðið hefur fyrir barðinu á rispara.

Hálfþrítugur Þjóðverji hefur verið dreginn fyrir rétt fyrir skemmdarverk á vel á annað þúsund bílum.

Gerði raðvandali þessi það að iðju sinni að rispa yfirbyggingu bíla. Er hann ákærður fyrir að skemma þannig 642 bíla og gerð er krafa um 930.000 evrur – jafnvirði um 125 milljóna króna – í bætur vegna viðgerða á bílunum.

Talið er að bílarnir sem maðurinn skemmdi séu allt að 1.700 talsins og heildartjón eigenda 2,3 milljónir evra. Sannanir þóttu ekki nægar vegna um eitt þúsund bíla og því ekki ákært fyrir þá.

Eftir að hafa fengið fjölda kvartana yfir rispum á bílum skipaði lögreglan sérstakan hóp til að rannsaka málið. Að endingu hafði hún erindi sem erfiði þegar risparinn var staðinn að verki og gómaður aprílmorgun einn árið 2018. Leiddi árvökul húsmóðir lögregluna á sporið. Sagðist hún hafa heyrt undarlegan hávaða utan við hús sitt og er hún gægðist út hefði þar verið maður sem gekk á hvern bílinn á fætur öðrum og rispaði þá með beittu áhaldi.

Maðurinn stundaði þessa iðju á þriggja mánaða tímabili snemma árs 2018, aðallega í borgunum Veitshöchheim, Schweinfurt og Würzburg.

Dómsmálinu er ólokið og óljóst hvers konar refsingu maðurinn geti átt yfir höfði sér, finni dómstóllinn hann sekan. Víst þykir að það verður honum þungt í skauti þurfi hann að bæta eigendum bílanna tjónið. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: