Porsche valinn besti framleiðandinn

Rafbíllinn Porsche Taycan verður frumsýndur á Íslandi í mars.
Rafbíllinn Porsche Taycan verður frumsýndur á Íslandi í mars.

Porsche er áreiðanlegasti bílaframleiðandinn, að mati tímarits bandarísku neytendasamtakanna Consumer Reports (CR). Í næstu sætum voru Genesis, Subaru og Mazda en alls voru 33 bílamerki prófuð í hinni árlegu áreiðanleikakönnun CR.

CR byggir niðurstöður sínar á eigin prófunum og vitnisburði bíleigenda.  Byggir lokaeinkunnin á fjórum þáttum; akstursprófi, áreiðanleikatölfræði, eigendaánægju og öryggi. Í akstursprófinu fara allir bílarnir gegnum 50 mismunandi þrautir á vegum úti.

Hlaut Porsche toppeinkunn í öllum fjórum flokkunum og  heildareinkunnina 86. Prófanir og mat á þremur módelum Porsche leiddi til þessarar niðurstöðu.

Genesis, sem er lúxusbíll kóreska bílsmiðsins Hyundai, varð í öðru sæti með einkunnina 84 en þar voru einnig þrenn mismunandi módel prófuð.

Subaru varð í þriðja sæti með einkunnina 81 og Mazda í fjórða sæti með einkunnina 79.

Í sætum fimm til þrettán urðu - í þessari röð - Lexus (77), Audi (77), Hyundai (75), BMW (75), Kia (74), Mini (74), Tesla (73), Toyota (73) og Lincoln (73).

CR er óháð sjálfseignarsamtök er eru engum háð og óhagnaðardrifin. Þau hafa notið mikils trausts og virðingar fyrir hlutlausar úttektir sínar á markaðsvörum hvers konar.

Í botnsætinu í könnun CR varð Fiat með einkunnina 43. Þar fyrir ofan varð Mitsubishi með 46 og Jeep með einkunnina 49.

mbl.is
Loka