Vilja aðgerðaáætlun fyrir fyrirtæki í viðskiptum með ökutæki

Bílgreinasambandið hefur sent stjórnvöldum tillögur að aðgerðum fyrir fyrirtæki í …
Bílgreinasambandið hefur sent stjórnvöldum tillögur að aðgerðum fyrir fyrirtæki í viðskiptum með ökutæki sem stjórnvöld gætu ráðist í vegna áhrifa kórónuveirunnar. mbl.is/Hanna

Bílgreinasambandið hefur sent stjórnvöldum tillögur að aðgerðum fyrir fyrirtæki í viðskiptum með ökutæki sem stjórnvöld gætu ráðist í vegna áhrifa kórónuveirunnar.

Tillagan er þríþætt og er markmið þeirra að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga sem starfa í bílgreinum við að komast í gegnum það erfiða tímabil sem fram undan er. „Við leggjum til niðurfellingu tryggingagjalds næstu þrjá mánuði, breytingu á gjalddaga vegna vörugjalda og að útvíkka verkefnið „Allir vinna“,“ er haft eftir Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, í tilkynningu. 

Alþingi samþykkti fyrir helgi laga­frum­varp þar sem kveðið er á um að fyr­ir­tæki geti frestað greiðslu á hluta staðgreiðslu og trygg­inga­gjalds. María segir það lítið en jákvætt skref en að sambandið vilji sjá stjórnvöld ganga lengra. 

Hún segir bílaumboð oft með gríðarlega háar fjárhæðir og þungar greiðslur vegna vörugjalda ökutækja. „Með því að heimila þeim að skipta greiðslum niður í tvo gjalddaga myndi létta undir með þeim til að komast í gegnum það tímabil sem við erum að sjá fram á næstu mánuðina. Fyrirsjáanlegt er að stór viðskiptavinahópur bílaumboðanna sé að takast á við miklar áskoranir og munu þær hafa bein áhrif á rekstur bílaumboða,“ er haft eftir Maríu í tilkynningu. 

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Ljósmynd/Aðsend

Þá vill Bílgreinasambandið að sveitarfélög, stéttarfélög og lífeyrissjóðir bregðist einnig við, til dæmis með lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði tímabundið og að fyrirtækjum verði veittur greiðslufrestur af því sem stendur eftir. 

„Lífeyrissjóðirnir hafa einnig tækifæri til að leggja sitt af mörkum og veita frest á greiðslum lífeyrissjóðsiðgjalda. Staða flestra sjóða er góð og því ætti að vera svigrúm til að veita greiðslufrest. Launagreiðslur eru forgangur flestra fyrirtækja og er það einnig hagur lífeyrissjóðanna að létta undir með fyrirtækjunum þegar horft er til lengri tíma,” segir María enn fremur.

mbl.is