Breskir bíleigendur sitja að jafnaði fastir í umferðarhnútum í 115 klukkutíma á ári, eða sem svarar rétt tæplega fimm dögum sleitulaust.
Bresk yfirvöld hafa reynt að magnfæra hnútana fyrir þjóðina í heild. Var niðurstaða umferðargreiningarstofunnar Inrix sú, að teppurnar hefðu kostað samfélagið 6,9 milljarða punda, eða 894 pund á hvern ökumann, sem svarar til 150 þúsunda króna á haus.
Ekki þarf að koma á óvart að London væri háborg umferðarhnútanna í Bretlandi og sú áttunda versta í heiminum. Þar var meðalseta í teppum 149 klukkustundir árið 2019.
Í öðru sæti varð Belfast með 112 stundir í umferðarhnútum. Þar á eftir komu Bristol (103 stundir), Edinborg (98 stundir) og Manchester (92 stundir).
London og Edinburgh deildu þeim vafasama heiðri að vera hægast eknu borgirnar. Í báðum reyndist meðalhraði síðustu mílu ferðalags aðeins 16 km/klst.
Teppur jukust hraðast í Cardiff en þar festust ökumenn að jafnaði 87 stundir í umferðarhnútum, sem er 5% aukning frá 2018. Aftur á móti styttist ferðatími í borg Hróa hattar Nottingham um 17% og mældust teppur að meðaltali 78 stundum á árinu 2019.
Greinandi hjá Inrix segir að umferðarvandi margra borga sé afleiðing þess hvernig þær hafi þróast undanfarin árhundruð. „London er yfir 2.000 ára gömul og þegar þú þróar svæði meðfram umferðaræðum gangandi fólks, vagna og kerruhesta, allt nema bíla, þá ræður borgarumhverfi ekki svo vel við bíla með tímanum. Borgin líður fyrir alvarlegar teppur í milljóna umhverfi tiltölulega efnamikils fólks,“ sagði hann. agas@mbl.is