Bifreiðasala dregst saman um 40%

Bílar á ferð um Drottningarbraut á Akureyri.
Bílar á ferð um Drottningarbraut á Akureyri.

Sala nýrra bíla dróst verulega saman í júnímánuði samanborið við sama mánuð í fyrra. Alls seldust 824 nýir fólksbílar, eða rétt tæplega 40% minna en í júnímánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Bílgreinasambandsins.

Helgast samdrátturinn fyrst og fremst af færri nýjum bílaleigubílum, en sala þeirra hefur dregist saman um 76,1% á milli ára. Ljóst er að dræma sölu til bílaleigna má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru. Á sama tíma hefur bifreiðasala til einstaklinga og almennra fyrirtækja aðeins dregist saman um 8,2%. Sala notaðra bíla er heldur betri og er á pari borið saman við júnímánuð í fyrra.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa selst 4.193 nýir fólksbílar, eða 42,5% færri en á sama tímabili í fyrra. Til samanburðar var sú tala 7.294 í fyrra. Mest selda tegundin það sem af er ári er Toyota með 13,1% markaðshlutdeild. Þar á eftir kemur Tesla með 11,1% markaðarins.

Hlutfall orkugjafa heldur áfram að breytast og er umtalsverð breyting milli ára. Hlutfall nýorkubíla er 57% af allri sölu nýrra fólksbíla á árinu og er það ríflega tvöfalt meira en í fyrra. Mest munar um sölu rafmagnsbíla sem selst hafa í 1.069 eintökum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: