Íslandsmót í nákvæmnisakstri 2020 fór fram í vikulokin en það var haldið samhliða heimsmeistaramót Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í nákvæmnisakstri rafbíla, dagana 20.-22. ágúst.
Jóhann Egilsson og Pétur Wilhelm Jóhannsson á Peugeot 208-e urðu hlutskarpastir í þessum hluta keppninnar með 2.711 stig. Óku þeir 703,7 km á þremur dögum og rafmagnseyðslan var 15,86 kW per 100 km. Raforkunotkun í keppninni hjá þeim er því 111,6 KWh, kostnaður per kWh á heimarafmagni er um 16 kr. og heildarorkukostnaður í keppninni því 1.785 kr. Vegalengdin er nálægt því eins og ekið hafi verið frá Reykjavík til Akureyrar og aftur til baka.
Í öðru sæti urðu Rebekka Helga Pálsdóttir og Auður Margrét Pálsdóttir á MG ZS EV með 4.181 stig. Í þriðja sæti á Peugeot 2008-e urðu Hinrik Haraldsson og Marinó Helgi Haraldsson 13.271 stig.
Systurnar Rebekka Helga og Auður Margrét kepptu fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu og unnu sparaksturshluta keppninnar með frábærum akstri og bestri nýtingu raforku (+9,6%) miðað við uppgefna tölu framleiðenda sem áttu bíl í keppninni.
Sigur Helgu og Auðar í sparaksturshlutanum færði þeim jafnframt annað sæti í heildarkeppninni, þar sem einnig var keppt í akstri skv. leiðarbók á uppgefnum hraða hverju sinni, auk eins stigs til heimsmeistara í heimsmeistaramótinu.
Ísorku eRally Iceland 2020, sem er hluti heimsmeistaramóts rafbíla á vegum FIA Electric Regularity Rally Cup (ERRC), hófst hér á landi sl. fimmtudag og lauk um helgina. Í heild voru eknir 703 km og þar af 407 km á sérleiðum.
Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Akstursíþróttasambands Íslands var þetta í þriðja sinn sem keppnin fór fram hér á landi. Þótti öll umgjörð keppnishaldsins til mikillar fyrirmyndar að mati sérfræðinga sem sóttu mótið á vegum FIA.
Markmið eRally er að kynna nýjustu tækni ökutækja sem ætlað er að spara orku og gefa frá sér minnsta mögulegt magn mengunar og koltvísýrings. Því er einnig ætlað að hvetja alla ökumenn til að breyta akstri með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni bílaumferðar með því að nota rafmagn sem drifkraft ökutækja. Heimsmeistaramótið í e-rallý (E-Rally Regularity Cup) er að öllu leyti helgað rafknúnum ökutækjum. Ekki má gera neinar breytingar á bílunum og verða keppendur að geta notað ökutæki sín til daglegrar notkunar. Markmið keppninnar er að keyra akstursleið á ákveðnum tíma og ákveðnum meðalhraða. Til viðbótar þarf ökumaður að huga að rafmagnseyðslunni og halda henni í lágmarki. Refstig eru gefin ef keyrt er of hratt eða of hægt, of stutt eða of langt og einnig eru gefin refsistig ef eyðsla í keppninni er umfram uppgefna raforkunotun bílsins skv. WLTP staðli.