Ingólfur Stefánsson í Safaris, sem er vottaður leiðbeindandi hjá Land Rover Experience og Global Driving Team sem heldur m.a. utan um reynsluakstursferðir um heiminn með blaðamenn á vegum Land Rover, lagði af stað í morgun í eitt þúsund kílómetra ferðalag á öræfi Íslands á nýjum Defender frá BL, sem settur var á grófmynstruð 33“ dekk.
Ætlunin er að ferðalagið taki sex daga enda leiðin löng sem hann og ferðafélagar hans munu aka við krefjandi aðstæður hvar sem borið verður niður. „Nú er sá tími ársins að síðustu forvöð eru að verða til að fara á lítið breyttum bílum á hálendið,“ segir Ingó í tilkynningu. Með honum verða í kringum tíu manns á fimm bílum, mismunandi breyttum, m.a. þrír eldri og mikið breyttir Defenderar auk m.a. Jimmy á 35“ og F350 á 40“ dekkjum.
Defender við kjöraðstæður
„Við ætlum að halda merki Land Rover á lofti og sýna fram á að nýr Defender er svo sannarlega ekki eftirbátur forvera sinna. Hann er þvert á móti betri, þægilegri og tæknilegri án þess að hafa tapað nokkrum eiginleikum sem snerta styrkleika og drifgetu. Stóri plúsinn er svo hversu vel hann fer með farþega sína, að ekki sé talað um þá ánægju sem hann færir ökumönnum. Ég vil meina að þessi öræfaferð verði hin raunverulega eldskírn Defender á alþjóðavísu; sú erfiðasta sem nýr Defender hefur tekist á við til þessa og undanskil ég þá ekki aðfarirnar sem kvikmyndalið James Bond beitti við upptökur myndarinnar. Við ætlum hins vegar ekki að fara í neinum loftköstum um hálendið heldur fylgja kjörorði Land Rover sem er „as slow as possible, as fast as necessary, eða góðir hlutir gerast hægt. Þetta eiga allir í jeppamennskunni að vita,“ segir Ingó ennfremur.
Löng og krefjandi leið
Í stuttu máli verður í Nýjadal í dag, þar sem gist verður, síðan áfram um Urðarháls í Öskju, þar sem gist verður í Dreka. Á sunnudag verður haldið norður fyrir Öskju um Vikrafellsleið til Suðurárbotna og Svartárkot og síðan um Bárðárdal og Hellugnúpsskarð yfir í Fnjóskadal og síðan áfram gamla veginn um Vaðlaheiði til Akureyrar. Eftir heimsókn í Ystafell og til eigenda eldri Land Rover bíla á Akureyri verður ekið uppúr snarbröttum Eyjafirði til Laugafells þar sem verður baðað og gist í lok dags. Daginn eftir verður ekið til Ingólfsskála norðan Hofsjökuls og ekið yfir jökulsána sem þar er við skálann og áfram um Blöndukvíslar inn á Kjalveg. Þessi leið er að jafnaði ekki fær nema við sérstakar aðstæður og einungis á breyttum jeppum. Þaðan verður haldið í næturgistingu í Kerlingarfjöllum. Þvínæst verður ekið norðan Kerlingarfjalla í Setrið, skála 4x4 og áfram suður um Fjórðungssand til Sólheima í Grímsnesi og lýkur ferðinni formlega daginn eftir í Reykjavík 17. september þegar eknir hafa verið í heild a.m.k. eitt þúsund kílómetrar á öræfum landsins. Hægt verður að fylgjast með ferðinni á Facebook-síðu Land Rover á Íslandi