Kínverskir lúxusrafbílar á leið til Íslands

Polestar 2 Er kominn á markað í nokkrum löndum. Áætla …
Polestar 2 Er kominn á markað í nokkrum löndum. Áætla má að söluverðið á Íslandi verði í kringum 10 milljónir.

Polestar kom eins og stormsveipur inn á rafbílamarkaðinn í Noregi og Svíþjóð í ágúst og seldi fleiri eintök af Polestar 2 en Tesla af Model 3.

Polestar, eða Pólstjarnan, er smíðaður í Chengdu í Kína. Vörumerkið er í eigu Volvo og kínverska móðurfélagsins Geely, sem keypti Volvo árið 2010.

Volvo keypti Polestar-vörumerkið af sænsku fyrirtæki árið 2015 og árið 2017 greindi Volvo frá því að Polestar myndi smíða lúxusrafbíla undir eigin merkjum í framtíðinni.

Hafði Volvo þá selt eigin bíla með uppfærslum kenndar við Polestar.

Samkvæmt vefsíðu Polestar er bíllinn í boði í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Bretlandi og Sviss. Þá verður hann í boði í Bandaríkjunum og Kanada.

Brimborg hefur umboð fyrir Volvo á Íslandi. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir Polestar ekki hafa gefið upp hvenær sala bílsins hefst á Íslandi. Bíllinn verði seldur á netinu og Brimborg þjónustar bílana.

Mögulega á næsta ári

Hugmyndabíllinn Polestar Precept veitir vísbendingu um sýn félagsins.
Hugmyndabíllinn Polestar Precept veitir vísbendingu um sýn félagsins.


Hins vegar sé líklegt að það verði fyrr en seinna og mögulega á næsta ári. Með hliðsjón af nýjungagirni Íslendinga sé ekki loku fyrir það skotið að einstaklingar muni kaupa bílana á eigin vegum og flytja til landsins. Það hafi gerst árið 2012 þegar Teslu-bílar komu til Íslands á vegum kaupenda en Tesla ekki opnað útibú hér á landi fyrr en 2019.

Egill segir Polestar setja upp sýningarrými í stórborgum sem jafnframt eru afhendingarstaðir.

Að svo komnu máli sé ekki raunhæft að setja upp svo stóra sali á smærri mörkuðum. Því sé líklegt að þar muni söluaðilar Volvo sjá um dreifingu og þjónustu fyrir bílana.

Sama grunntækni

Innanrýmið. Polestar 2 er með stórum skjá, líkt og Teslu-bíllinn.
Innanrýmið. Polestar 2 er með stórum skjá, líkt og Teslu-bíllinn.


Egill segir Polestar 2 byggðan á sömu grunntækni og Volvo XC40-jepplingurinn. Með því nái Volvo fram stærðarhagkvæmni en hönnun aðgreini bílana á markaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Polestar megi ætla að söluverðið verði í kringum 60 þúsund evrur. Ætla megi að söluverðið verði álíka hátt á Íslandi, að því gefnu að hér verði hvorki greiddur virðisaukaskattur né vörugjöld. Flutningskostnaður muni þó bætast við söluverðið.

„Þetta er í raun lúxusbílamerki. Það er merkilegt að þarna er búið að búa til nýjan bílaframleiðanda úr engu. Polestar var áður vörumerki fyrir uppfærslur innan Volvo.

Polestar hóf sölu í Kína fyrir nokkru síðan en er nú að sækja á Evrópumarkað. Þetta er 100% rafbílamerki og stökkpallur fyrir Volvo til að komast hratt inn á hreina rafbílamarkaðinn, en geta samt haldið áfram að þróa vörumerkið Volvo. Þessu má líkja við að smíða Teslu undir eigin nafni, án þess að þurfa að hoppa beint með Volvoinn í þá samkeppni, því slíkt er alltaf erfitt þegar þú ert með ákveðinn kúnnahóp sem þú þarft að þjónusta,“ segir Egill.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: