Hér á landi hefur hjóðlát samgöngubylting átt sér stað undanfarin misseri, þar sem fólk hefur verið að skipta úr hefðbundnum bílum, knúnum með jarðefnaeldsneyti – bensíni eða dísil – yfir í nýorkubíla. Margir hafa sameinað kosti beggja með tvinnbílum, en núna eru hreinir rafmagnsbílar í gríðarlegri sókn. Það sem af er ári eru þannig um fjórðungur nýskráðra bíla rafmagnsbílar, en bílar með hefðbundnum sprengihreyfli í fyrsta sinn innan við helmingur.
Þar helst í hendur áhugi á umhverfisvernd og ódýrari orku, en nú fyrst eru komnir bílar í því úrvali sem þarf til að standa undir væntingum neytenda með ólíkar þarfir og innviðirnir til þess að þeir nýtist nær hvar sem er. Og hitt spillir ekki fyrir að margir af þessum nýju rafbílum eru afbragðsbílar, alveg burtséð frá orkugjafanum. Honda e er einn þeirrra.
Honda e er fyrsti fjöldaframleiddi rafbílinn frá Honda og það er greinilegt að með honum vill japanski framleiðandinn marka sér bás. Þetta er sprækur og lipur borgarbíll með nóg af þægindum og stíl.
Þetta með stílinn skiptir máli. Honda e vekur eftirtekt fyrir útlitið, sem menn eru þó ekki á eitt sáttir um í hverju felst. Sumum finnst það retró en öðrum finnst það framtíðarlegt. Það er nokkuð til í hvoru tveggja. Bílnum svipar meira en ögn til gamla Honda Civic, eins og hann var upphaflega, en á hinn bóginn ber hann vott um fágaða og framtíðarlega hönnun. Það sést vel á hvítu útgáfunni, sem er nánast eins og eitthvað frá Apple.
Þessa skemmtilegu blöndu fortíðar og framtíðar er einnig að finna innandyra í Honda e. Þar tekur við magnað mælaborð flatskjáa, sem nær endilangt hurða á milli, en um leið er það rammað inn með plasti (Formica?) með viðaráferð, sem einhvernveginn er alls ekki ósmekklegt. Frekar en annað í bílnum, sem er mjög vel heppnaður hvað hönnunina varðar.
Eins og áður segir er þetta borgarbíll og það í smærra lagi. Sambærilegur við Honda Jazz, svo augljóst viðmið sé nefnt. Hann er samt ekki þröngur frammi í og bekkurinn aftur í vel boðlegur fyrir krakka, en mjög á mörkunum fyrir fullorðna. En það er ekki heldur gert ráð fyrir að þar sitji fleiri en tveir. Sömuleiðis er rýmið í skottinu ekki mikið, dugar vel fyrir matarinnkaup en ekki mikið meira. Nema auðvitað menn leggi bekkinn niður.
Það að hann sé borgarbíll merkja menn þó sjálfsagt helst af dræginu. Honda e kemst um 220 km á hleðslunni, sem er með því minnsta sem gerist hjá rafmagnsbílum nú orðið. Og sjálfsagt er drægið merkjanlega styttra yfir veturinn þegar menn kynda miðstöðina duglega. Það er algerlega boðlegt innanbæjar en ekki til langferða út á land, þar sem ekki er alls staðar hægt að komast í hraðhleðslu.
En það er bara eins og það er, Honda ákvað að búa til borgarbíl, og það kallar ekki á stóreflis rafhlöðu. Það gefur bílnum líka ýmsa aðra eiginleika, hann liggur lágt og fólk finnur ekki fyrir háum rafhlöðubotni eins og í sumum rafbílum, hann er „aðeins“ rúm 1.500 kg, sem þykir ekki verulegt með rafbílum en er meira en maður á að venjast af ekki stærrri bíl.
Fleira gerir Hondu e að frábærum borgarbíl. Hann er afturhjóladrifinn og beygjuradíusinn eins og á Lundúnataxa. Vélin í honum er mjög spræk og fljót upp, en er líka mjög vel tempruð, þannig að hann er næmur þegar stigið er á pedalann, en ekki of næmur.
Honda e kemur í tveimur gerðum, „e“ og „e Advance“, en munurinn felst aðallega í aflinu. Yðar einlægur fékk Advance til reynslu hjá Öskju, sem er með 154 hestafla vél, en grunngerðin er með 136 hestöfl. Sannast sagna eru 154 hestöfl miklu meira en nóg, svo það eru sjálfsagt nokkru betri kaup í grunngerðinni. Jú, það fylgir fleira Advance-gerðinni, en samt er staðalútbúnaður beggja gerða svo vel útilátinn, að það er ekki víst að fólk sakni neins í grunngerðinni.
Það er eitthvað sem fólk ætti að velta fyrir sér, því það munar um 300.000 kr. á þessum tveimur gerðum af Hondu e. Og það er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því, að Honda e er ekki ódýr bíll af borgarbíl að vera, byrjar í 4.390.000 kr.
Það er ekki vegna þess að þetta sé ekki gott verð, það er bara ekki lágt verð. Af því að Hondu e er ekki ætlað að vera ódýr bíll. Nei, allt við hann ber með sér að þetta sé bíll sem fólki eigi að þykja vænt um, þyki þægilegur og umfram allt skemmtilegur. Og það er hann svikalaust allt.
Eins og minnst var á hér að framan tekur fólk eftir þessum bíl á götu, hann hefur sérstakt yfirbragð og góða hönnun. Að því leyti til höfðar hann sjálfsagt til svipaðs kaupendahóps og gæti hugsað sér rafmagnsútgáfuna af Fiat 500 eða Mini, vill eiga sérstakan og praktískan bíl, þar sem áhersla er lögð á hönnun, gæði og skemmtilega aksturseiginleika. Það fólk ætti tvímælaust að gefa Hondu e gaum. Jú, hann er kannski skammdrægur og í dýrara lagi, en hann er hugsaður fyrir borgarbúa með góðan smekk.
Þetta er sprækur bíll, með nóg af hestöflum og fínu togi (315 Nm). Og af því að hann er þungur, þá steinliggur hann, líka í beygjum. Fyrir vikið er hann beinlínis sportlegur í akstri, en mjög öruggur líka. Hann er með sjálfstæða fjöðrun á öllum, sem sakar ekki heldur og gerir bílinn veigameiri í akstri en stærðin segir til um.
Það er enginn vandi að þræða bílinn um þrönga stíga Grjótaþorpsins og hann gaf ekki heldur neitt eftir á frekar lélegum og bugðóttum malarvegi. Þrátt fyrir að hann sé ekki gerður fyrir langferðir, þá var Honda e þrælfínn á Keflavíkurveginum líka, en drægið sem fyrr segir takmarkað, sérstaklega ef bílnum er haldið uppi við hraðatakmarkið.
Í stuttu máli sagt, einstaklega skemmtilegur bíll í akstri og það er nú einhvers virði.
Það á líka við akstursrýmið. Það er aðsniðið, en ekki þröngt. Það er líka nýstárlegt um sumt, fyrst og fremst hvað varðar skjámælaborðið, sem gefur marga möguleika, en er samt ekki óþarflega flókið. Þar kemur einn stakur snúningstakki líka sterkur inn.
Á Hondu e eru ekki hliðarspeglar, heldur eru myndavélar staðalbúnaður og yst sitt hvorum megin eru sérstakir skjáir sem gefa manni mynd af því sem er fyrir aftan. Þeir skjáir eru hárrétt staðsettir og venjast miklu fyrr heldur en maður gæti óttast. Og gott betur, því þeir gefa betri mynd en speglar gerðu við léleg birtuskilyrði. Baksýnisspegillinn er líka skjár og svo er bakkmyndavél og ýmsar myndavélar aðrar sem koma sér vel. Tölvutæknin gerir þá svo enn betri, því það má t.d. fá upp tilbúna mynd sem virðist tekin eins og 5 m fyrir ofan hann til þess að átta sig á afstöðu í þröngu stæði. Og þegar bakkað er út úr stæði er engu líkara en að bíllinn „sjái“ fyrir horn. Mjög til fyrirmyndar allt. Svo er hann auðvitað með hleðslutengjum fyrir síma, CarPlay og allt bullið. Það er meira að segja hægt að hafa hann nettengdan svo farþegarnir tengist WiFi meðan þeir eru í honum.
Eitt enn, sem nefna þarf, er að bíllinn er ótrúlega hljóðlátur. Ekki aðeins þannig að lítið heyrist í vélinni út á við, heldur er varla að menn taki eftir henni, vindi eða veghljóði í akstri.
Svo er Honda e peninganna virði? Ef drægið truflar fólk ekki, ef það er í alvöru að leita að borgarbíl sem það ætlar að nota þannig, þá er hann það. Hann er ekki ódýr, en þetta er ekki heldur nein dós, heldur alvörubíll með frábæra eiginleika. Með tilvísun til fortíðar í útliti, en vísar um allt annað til framtíðar.
Greinin birtist fyrst í bílablaði Morgunblaðsins þann 20. október