Rafbílum fjölgar í Kína og Rússlandi

Kínverski rafjeppinn Aiways U5 iON.
Kínverski rafjeppinn Aiways U5 iON.

Vefsetrið chinapev.com hefur dregið  saman sölutölur fyrir nýja rafbíla í Kina á nýliðnu ári, 2020. Er þar að finna líflegasta rafbílamarkað heims.

Í efsta sæti varð NIO sem seldist í 43.000 eintökum, í öðru sæti varð Lixiang með 32.500 bíla og Xpeng með 27.000.

Allir voru þessir þrír smíðaðir allt árið, en sömu sögu er ekki að segja um alla kínverska rafbíla. Fór salan rólega af stað og nam t.a.m. 630 Xpengbílum í janúar sl., 1.180 Lixiang og 1.600 NIO.

Í árslok 2019 töldust fyrirtæki sem smíða rafbíla í Kína vera alls 486. Hafði fjöldi þeirra þrefaldast á tveimur árum.     

Rússar eru ekki meðal áköfustu rafbílanotenda en þrátt fyrir allt tvöfaldaðist rafbílasalan þar í landi í nóvember sl.

Reyndar var ekki um háar tölur að ræða; alls voru seldir 55 eintök, já aðeins fimmtíu og fimm, rafknúnir bílar voru nýskráðir í Rússlandi árið 2020.

Söluhæstur varð Audi e-tron með 18 eintök, í öðru sæti varð Renault Leaf með 11 og í þriðja sæti Tesla. Af Model 3 fóru 10 eintök  og fimm af Model X.  Í heild seldust 510 nýir rafbílar í Rússlandi á árinu.

mbl.is