Tímaritið GQ í Bretlandi veitti í vikunni Hyundai Nexo verðlaunatitilinn „nýorkubíll ársins 2021“ á árlegu verðlaunahátíð sinni í London.
Í umsögn dómnefndar er Hyundai hrósað fyrir sína djörfu einstöku þróunarleið sem farin var við hönnun aflgjafa Nexo og sem fáir aðrir framleiðendur hafi fetað við þróun nýrra orkugjafa fyrir samgöngur.
Nexo er rúmgóður fimm manna vetnisknúinn rafbíll sem búinn er efnarafal sem umbreytir vetni af eldsneytistanki bílsins yfir í rafmagn sem bæði er veitt beint inn á rafmótor bílsins og inn á rafhlöðu hans, þaðan sem rafmótorinn fær einnig nauðsynlega orku til stjórnbúnaðar og aksturs. Í umsögn sinni segir dómnefndin Hyundai hafa sýnt fram á að vetni geti mögulega verið „skilvirkari og hagnýtari aflgjafi í bifreiðum“ en aðrir sem meira eru nýttir í dag.
Rafmótor Nexo er 120 kW og 163 hestöfl. Rafmótorinn togar allt að 395 Nm og skilar allt að 179 km/klst. hámarkshraða. Hröðun úr kyrrstöðu í hundraðið er 9,2 sekúndur og 7,4 sek. frá 80 km hraða í 100. Mun enginn vetnisknúinn rafbíll á markaðnum skáka afköstum hans í þessum flokki.
Eldsneytisrými Nexo fyrir vetni er 156,6 lítrar (6,3 kg) og dregur bíllinn allt að 666 km á tankinum samkvæmt WLTP. Einungis tekur 3-4 mínútur að fylla vetnistankinn og aldrei þarf að stinga bílnum í samband við rafmagn til að hlaða rafhlöðuna. Nexo þolir kaldstart í allt að -30°C.
Hjá Hyundai í Garðabæ er Nexo til taks fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa bílinn og fræðast nánar um tækni hans og þá innviðauppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað á suðvesturhorni landsins á vegum Skeljungs.