Sparneytinn og sportlegur Yaris bíll ársins í Evrópu

Smábíllinn Toyota Yaris þykir vel að viðurkenningunni kominn. Hann notar …
Smábíllinn Toyota Yaris þykir vel að viðurkenningunni kominn. Hann notar tvíorkuaflrás af fjórðu kynslóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrr í mánuðinum tilkynntu evrópskir bílablaðamenn að smábíllinn Toyota Yaris hefði orðið hlutskarpastur í valinu um bíl ársins í Evrópu (e. European Car of the Year, ECOTY). Verðlaunin, sem hafa verið veitt frá árinu 1964, þykja einhver þau virtustu í bílaheiminum en að þeim standa bílablöð á Ítalíu, Bretlandi, Spáni, Hollandi, Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð.

Taka margir reyndustu blaðamenn álfunnar höndum saman um að velja þann bíl sem ber af og er aðeins um einn verðlaunaflokk að ræða.

Auk Yaris mátti finna í toppslagnum rafmagnaðan Fiat 500, Cupra Formentor-sportjeppann, rafbílinn Volkswagen ID.3, Skoda Octavia og Citroën C4.

Athygli vekur að dómnefndin skyldi ekki velja rafbíl í fyrsta sætið enda hafa rafbílaframleiðendur margir rakað til sín verðlaununum á undanförnum misserum. Hörður Bjarnason, tæknifulltrúi hjá Toyota á Íslandi, segir Yaris þó vel að verðlaununum kominn og með einstaklega vel heppnaða tvinnaflrás.

„Ég sá það strax og ég fékk að reyna þennan bíl að það er mikið í hann spunnið. Hann er fallega hannaður, með lágan þyngdarpunkt og sportlega aksturseiginleika. Tókst hönnuðum Yaris m.a. að gera fjöðrunina mýkri almennt en þó 80% stífari til hliðanna svo að bíllinn veltur minna í beygjum. Yaris er fyrsti bíllinn frá Toyota sem byggður er á nýrri TNGA-B-grunnplötu, en hönnun hennar leiðir m.a. af sér að yfirbyggingin er 37% stífari en í fyrri kynslóð Yaris, sem eykur enn frekar á sportlega akstursupplifun. Ökumaður situr aftar en áður og er nokkurn veginn mitt á milli fram- og afturhjóla sem stuðlar að skemmtilegri akstursupplifun og saman virkar þetta allt með nýrri og öflugri aflrás til að gera snarpan og líflegan bíl sem er jafnframt mjög sparneytinn.“

Eyðir lengri tíma með hverjum bensíndropa

Hörður Bjarnason, tæknifulltrúi hjá Toyota á Íslandi.
Hörður Bjarnason, tæknifulltrúi hjá Toyota á Íslandi.


Tvinnaflrásin í Yaris er fjórða kynslóðin sem Toyota þróar en sú fyrsta leit dagsins ljós árið 1997 og barst til Evrópumarkaðar árið 2000. Toyota notaði tvinnaflrás fyrst í Prius en smám saman hefur tæknin orðið hluti af fleiri módelum frá bílaframleiðandanum og í dag er tvinnaflrásin allsráðandi í öllum fólksbílum og sportjeppum framleiðandans. „Hönnunin miðar að því að nýta sem best orkuna í bensíninu og helst nýta sömu orkuna aftur og aftur með því að hemla bílnum með hleðsluálagi sem framleiðir rafmagn, frekar en að hemla með hefðbundna bremsukerfinu þar sem orkan tapast sem hiti. Þannig varðveitir tvinnaflrásin skriðorku bílsins og rafmagnið sem verður til er svo notað til að byggja upp skriðorku á ný án aðkomu bensínvélarinnar. Bíllinn slekkur á bensínvélinni við ýmsar aðstæður í akstrinum og getur nýjasta kynslóð tvinnaflrásarinnar í Yaris keyrt á 130 km hraða á rafmótorunum einum saman án þess að bensínvélin sé í gangi,“ útskýrir Hörður. „Tvinnbúnaðurinn vinnur með nýrri 1,5 l Atkinson-bensínvél sem lengir aflslagið hlutfallslega umfram það sem við sjáum í hefðbundnum bensínvélum svo að segja má að vélin verji meiri tíma með hverjum bensíndropa. Er varmanýtni vélarinnar um 40% sem er með því besta sem þekkist. Þá er komin hærri spenna á drifrafhlöðuna sem gerir bílinn ögn öflugri og auðveldar rafmagnshluta tvinndrifrásarinnar að taka meira á því. Stýrikerfi rafmótorsins er líka orðið nettara, sem og tvinngírkassinn, sem þýðir minna orkutap og mun léttari og liprari bíl.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: