„Ég fékk fljótt á tilfinninguna að Toyota væru bílar sem Íslendingum líkaði við og myndu seljast vel. Viðbrögðin voru strax jákvæð og salan fór vel af stað,“ segir Páll Samúelsson, fyrrverandi forstjóri á Toyota á Íslandi, en í gær afhenti hann núverandi eigendum bílaumboðsins fyrsta Toyota-bílinn sem kom til landsins og hann seldi.
Það var árið 1965. Tilfinning Páls um að Toyota væru bílar Íslendingum að skapi reyndist rétt og brátt fór boltinn að rúlla. Toyota-umboðið var stofnað um 1970 og var í eigu Páls og fjölskyldu hans fram í desember 2005. Toyota-bílar á Íslandi eru í dag milli 50-60 þúsund.
Fyrsta Toyotan á Íslandi er af gerðinni Crown, árgerð 1965, og aflið er 85 hestöfl. Fyrsti eigandi bílsins var tengdafaðir Páls Samúelssonar, Bogi Sigurðssson, sýningarmaður í Háskólabíói. „Þegar tengdapabbi ók um Laugaveginn stoppuðu vegfarendur hann stundum til að spyrja um bílinn og vildu skoða. Bíllinn þótti einstakur. Var svo seldur austur á land, en ég gleymdi gripnum aldrei. Bifreiðaeftirlitið, sem þá var, hjálpaði mér við að hafa uppi á bílnum sem ég keypti til baka norðan frá Húsavík árið 1988,“ segir Páll. Bíllinn hafði þegar hér var komið sögu nokkuð látið á sjá og viðgerð tók því sinn tíma. „Hagleiksmenn á verkstæði Toyota fóru í viðgerðir og endursmíðuðu það sem þurfti. Komu bílnum í lag og í dag er hann orðinn jafn góður og verða má. Nú fannst mér hins vegar tímabært losa mig við bílinn – og fjölskyldan var sammála um að best væri að Toyota-umboðið tæki við honum aftur.“
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, tók við bílnum af Páli í gær og sagði við það tilefni að ánægjulegt væri að fá þennan sögulega bíl. Í framtíðinni yrði hann stássgripur í sýningarsölum fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ. Einnig myndi hann bjóðast til útláns við brúðkaup, því hefð er fyrir slíku enda er bíllinn afar glæsilegur.