Jaguar E-Pace nú eingöngu í tengiltvinnútfærslu

Jaguar E-Pace tengiltvinnbíllinn.
Jaguar E-Pace tengiltvinnbíllinn.

Jaguar E-Pace var fyrsti smájepplingurinn sem framleiðandinn kynnti á markaðnum og var frá upphafi, 2017, boðinn bæði framdrifinn eða með sídrifi.

Nú kynnir Jaguar nýja kynslóð E-Pace í tengiltvinnútfærslu (PHEV) þar sem sameinast ný og létt 1,5 lítra þriggja strokka 200 hestafla bensínvél við drifrásina að framan og 80kW 109 hestafla rafmótor fyrir drifrásina að aftan auk 15kWh lithium-ion rafhlöðu undir gólfinu.

Rafmótorinn býður allt að 55 km akstursdrægi í rafstillingunni sem hentar flestum daglegum akstri til og frá vinnu í þéttbýli. Hann verður frumsýndur hjá BL á morgun, laugardag.

309 hestafla E-Pace tengiltvinnbíll

Með nýju drifrásinni er þessi nýi 309 hestafla E-Pace tengiltvinnbíll aðeins rúmar 6 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst, losun koltvísýrings er frá 44 g/km og eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er frá 2 l/100km.

Aðeins tekur um 30 mínútur að hlaða bílinn frá 0-80% í 32kW DC hleðslustöð eða stærri. Hægt er að velja milli þriggja akstursstillinga í E-Pace PHEV eftir eðli ökuferðarinnar til að hámarka orkunýtni og afköst auk þess sem sídrifið aftengist sjálfkrafa í sparakstri (Eco).

Þá hefur E-Pace tengiltvinnbíllinn einnig fengið nýjan og stærri 11,4“ miðlægan snertiskjá auk nýja upplýsinga- og afþreyingarkerfisins Pivi Pro auk þess sem hægt er að sækja hugbúnaðaruppfærslur yfir netið. Þá státar nýr E-Pace enn fremur af ákveðnum útlitsbreytingum, svo sem breyttum línum í höggdeyfum framan og aftan og fleiri atriða til frekari útlitsfágunar. Hægt er að kynna sér frekari upplýsingar um staðal- og aukabúnað E-Pace PHEV á jaguarlandrover.is.

Jaguar E-Pace tengiltvinnbíllinn nýi.
Jaguar E-Pace tengiltvinnbíllinn nýi.
mbl.is