Nýr Land Rover Defender í þriggja dyra útfærslu

Land Rover Defender 90
Land Rover Defender 90

Auk nýs og breytts Land Rover Discovery 5 og Jaguar E-Pace í tengiltvinnútgáfu (PHEV) frumsýnir Jaguar Land Rover við Hestháls á morgun, laugardaginn, 8. maí, nýjan Land Rover Defender 90 sem er þriggja dyra útgáfa bílsins.

Lengri gerð bílsins, Defender 110, kom á markað í júní á síðasta ári á Íslandi og hlaut strax góðar móttökur aðdáenda. Síðan þá hafa margir þjarkanna ýmsa fjöruna sopið í hálendisferðum auk þess sem Arctic Trucks hefur breytt nokkrum bílum fyrir bæði 33“ og 35“ jeppadekk til að auka enn á hæfni þeirra í erfiðari ferðum.

Ekta Land Rover

Land Rover Defender 90 er í grunninn nákvæmlega eins og Land Rover Defender 110 nema bara 43 cm styttri fyrir aftan aftari sætisröðuna, þar sem lengri gerð bílsins býr að meira rými fyrir farangur og tvo aukafarþega í tilviki sjö manna útgáfunnar. Defender 90 býr að sömu gæðum í farþegarými, vali um sömu vélar og drifbúnaðurinn er nákvæmlega sá sami og í Defender 110.

„Til að byrja með verður þó mesta áherslan lögð á að bjóða bílinn með þriggja lítra dísilvélinni í 200 hestafla útfærslu svo koma megi sem best til móts við stærsta viðskiptavinahópinn hér á landi, en mikil samkeppni ríkir um Defender milli söluaðila um allan vegna mikillar eftirspurnar eftir bílum,“ segir í tilkynningu.

Hægt er að kynna sér nánar staðal- og aukabúnað Defender 90 á landrover.is. Þess má geta í lokin að í lok síðasta mánaðar hafði nýr Defender unnið til fimmtíu alþjóðlegra verðlauna, nú síðast hönnunarverðlaun World Car Awards sem best hannaði bíll ársins 2021.

mbl.is