Þýski bílrisinn Volkswagen segist stefna að heimsyfirráðum á rafbílamarkaði í síðasta lagi árið 2025. Hefur hann lagt meiri og meiri áherslu á þróun og smíði þessarar bílgerðar undanfarin misseri.
Volkswagen seldi 422.000 rafdrifna bíla í fyrra, 2020. Af þeim voru 230.000 hreinir rafbílar, sem er þrisvar sinnum meiri sala en 2019. Mismunurinn er tvíorkubílar með brunavél og rafmótor.
Nýjustu áætlanir VW kveða á um að selja milljón rafdrifna bíla í ár, segir í tilkynningu fyrirtækisins. „Í síðasta lagi árið 2025 ætlar samsteypan sér forystuhlutverk á rafbílamarkaði,“ segir þar ennfremur.
Í samsteypu VW eru 12 bílamerki frá Audi til Porsche og þau ásamt Seat ætla að fjárfesta fyrir 46 milljarða evra næstu fimm árin í breytingunni yfir í rafbílasmíði til frambúðar. Það lætur nærri því að jafngilda 6.900 milljörðum króna.
Tíundi hver bíll sem seldur var í Evrópu í fyrra var rafknúinn, sem er fimmföld aukning frá árinu áður. Munaði þar mjög um komu lykilmódels Volkswagen að nafni ID.3.
Áætlar VW að árið 2030 framleiði fyrirtækið og selji fleiri rafbíla en bíla með brunavél í Evrópu, eða 60% á móti 40%. Þá verði annar hver seldur bíll fyrirtækisins á heimsmarkaði rafbíll það ár.
Þrátt fyrir þetta nefndi Volkswagen hvergi hvenær fyrirtækið mun hætta smíði bíla með vélum er ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. „Árið 2035 verður meirihluti bíla rafknúinn og meira en 40% bíla verða sjálfakandi á þeim tíma,“ sagði Herbert Diess forstjóri VW. agas@mbl.is