Toyota hefur kynnt til sögunnar nýja línu af hinum vinsæla jeppa Land Cruiser. Greinir þessi nýja kynslóð sig frá öðrum útgáfum með auðkenninu 300.
Hann verður fáanlegur með alveg nýjum vélum, þar á meðal 3,5 lítra V6-bensínvél með tvöfaldri forþjöppu og jafnframt 3,3 lítra hverfilblásinni V6-dísilvél.
Toyota endurhannar Land Cruiser-línur sínar ekki of oft og því er koma 300-línunnar stórmál í bílaheiminum. Í samanburði við 200-línuna er nýr
Land Cruiser léttari, kraftmeiri og með mun nútímalegra farþegarými. Hann kemur ekki á markað í Vestur Evrópu og verður því ekki seldur hér.
Nýr Land Cruiser 300 er sagður 440 pundum eða 200 kílóum léttari en 200-bíllinn. Þá er bensínvélin sögð 409 hestafla og dísilvélin 304 hestöfl. Í báðum gerðum er sjálfvirk 10 gíra skipting og allar útgáfur jeppans verða með drifi á öllum fjórum hjólum.
Nýi bíllinn lítur ekki út fyrir að vera mjög ólíkur núverandi Land Cruiser að hönnun. Á framendanum er þó mun meira áberandi grill og ljósabúnaður nýtískulegri. Afturljósin eru alveg ný og afturhurðin líka.
Eins og áður segir er innanrýmið alveg endurskapað og nýr upplýsingaskjár mun stærri og brúklegri en fyrr. Mælaborðið er að öðru leyti hreinlegra. Sætaraðir eru þrjár og virðist sem sú þriðja gangi niður í gólfið til að auka farangursrýmið. Er það fyrirkomulag mikil breyting frá því sem nú er. agas@mbl.is