Á flestum heimilum er eldvarnarteppi innan seilingar í eldhúsinu enda alkunna að ein besta leiðin til að bregðast við eldi í pottum og pönnum er að hjúpa eldinn og kæfa.
Komið hefur í ljós að það sama gildir þegar eldur kviknar í rafmagnsbíl og hefur framleiðandinn Bridgehill þróað risastórt eldvarnarteppi sem mun koma í góðar þarfir nú þegar rafmagnsbílum fer fjölgandi.
Dagný Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Eldvarnamiðstöðvarinnar sem flytur inn teppin frá Bridgehill. Hún segir að þá sjaldan sem kviknar í rafhlöðum rafmagnsbíla geti eldurinn verið mjög erfiður viðureignar. „Það sem aðgreinir elda í rafmagnsbílum frá t.d. logandi bensínbílum er að eldurinn verður miklu heitari og getur hæglega farið upp í 3.000 Celsíusgráður. Þetta eru eldar sem erfitt er að slökkva og vitaskuld er ekki hægt að kæfa eldinn með vatni enda rafmagnseldur. Verður annaðhvort að nota kæfandi slökkviefni eða hjúpa bílinn með eldvarnarteppi og kæfa eldinn með því móti.“
Eldvarnarteppið frá Bridgehill er stórt og mikið og getur hjúpað jafnt smábíla sem jeppa. Vegna stærðarinnar og þyngdarinnar, og til að verja þá sem nota teppið, þurfa tveir að hjálpast að við að hylja bílinn. „Eldvarnarteppið er selt í sérstökum skáp og tösku og kemur með skýrum leiðbeiningum um hvernig fólk á að draga teppið yfir bílinn og um leið nota teppið til að skýla sjálfum sér frá þeim hita sem stafar frá eldinum,“ segir Dagný. „Vitaskuld á fyrst af öllu að hringja í Neyðarlínuna, og ef hitinn í bálinu er of mikill á fólk ekki að setja sjálft sig í hættu, en þegar eldvarnarteppið er lagt yfir meðalstóran bíl eru um tveir metrar á milli ökutækis og þeirra sem halda á teppinu.“
Eldvarnarteppið er fyrirferðarmikið og kostar 250.000 kr. og segir Dagný því ekki inni í myndinni að geyma eins og eitt teppi í skottinu á heimilisbílnum með öðrum öryggisbúnaði. Hins vegar geti teppið t.d. verið hluti af eldvörnum í bílakjöllurum fjölbýlishúsa og eins í bílastæðahúsum verslunarmiðstöðva. „Þannig er hægt að grípa strax inn í og forða því að eldurinn valdi tjóni á mannvirkjum og á öðrum ökutækjum. Þá er eldvarnarteppið ómissandi öryggisbúnaður um borð í ferjum og í göngum þar sem aðstæður til að berjast við eld í bíl eru með versta móti,“ segir Dagný og minnir á að eldvarnarteppið nýtist að sjálfsögðu til að slökkva elda í bensín- og díselbílum rétt eins og elda í rafmagnsbílum.
Einnig má reikna fastlega með því að stóru eldvarnarteppin verði hluti af staðalbúnaði slökkvibifreiða enda á margan hátt heppilegri og umhverfisvænni leið til að slökkva elda í bílum. „Oft verður slökkviliðið að nota sérstök efni sem er ekki endilega æskilegt að losa út í andrúmsloftið eða nota á viðkvæmum svæðum eins og t.d. á vatnsverndarsvæðum.“
Dagný minnir líka á að eldur í rafhlöðupökkum bifreiða geri oft boð á undan sér. Fólk ætti að þekkja einkennin og hjúpa bílinn með eldvarnarteppi ef það er innan seilingar áður en eldur brýst út. „Þegar rafhlöðupakki byrjar að bresta gefur hann ósjaldan frá sér hljóð sem minnir á hvæs í ketti. Þá tekur við töluverð hitamyndun og kann að verða vart við reyk en oft líður allnokkur tími frá því greina má fyrstu merki um vandamál og þar til mikill eldur logar.“
Dagný bætir því við að eldvarnarteppi í ýmsum stærðum eigi að vera til á öllum heimilum, m.a. vegna aukinnar hættu á eldi frá rafmagnstækjum. „Það getur t.d. gerst að börnin á heimilinu feli snjallsímana sína og spjaldtölvur undir koddum og ábreiðum og hlaða tækin á meðan en það getur skapað mikinn hita og eldhættu. Er þá yfirleitt besta leiðin til að slökkva eldinn að breiða eldvarnarteppi yfir bálið.“