Trúlofunargjöf Díönu á uppboði

Díana brúkaði Escortinn í rúmt ár.
Díana brúkaði Escortinn í rúmt ár. Morgunblaðið/Ljósmynd/Reeman-Davis

Bíll sem Díönu prinsessu var gefinn að gjöf er hún trúlofaðist Karli Bretaprinsi verður seldur á uppboði í London eftir hálfan mánuð, 29. júní næstkomandi.

Um er að ræða Ford Escort Ghia sem Karl gaf Díönu í maí 1981, tveimur mánuðum fyrir hið konunglega brúðkaup þeirra. Brúkaði prinsessan af Wales bílinn þar til í ágúst árið eftir, 1982. Það er uppboðshúsið Reeman Davis sem mun selja bílinn fyrir núverandi eiganda hans. Þykir sérfræðingum þess trúlegt að fá megi allt að 40.000 sterlingspund, eða sem svarar tæplega sjö milljónum króna, fyrir ökutækið. Ráða þar öllu hin konunglegu tengsl bílsins.

Að sögn uppboðshússins hefur bíllinn verið meira og minna í geymslu undanfarin 20 ár. Hefur núverandi eigandi hans leynt uppruna bílsins fyrir vinum sínum og kunningjum. Hann er á upprunalegum skrásetningarplötum, lakkið er upprunalegt og bólstursverk allt innandyra. Uppboðshaldarinn segir bílinn í „ótrúlega góðu“ ásigkomulagi. Vegmælir segir honum hafa verið ekið 83.000 mílur um dagana, eða 132 þúsund kílómetra.

Bíllinn er að öllu leyti upprunalegur og rúsínan í pylsuendanum er froskastytta fremst á vélarhlífinni sem mun vera afsteypa styttu sem systir Díönu, lafði Sarah Spencer, gaf henni til að minna hana á ævintýrið um undurfögru stúlkuna og froskinn sem breyttist í prins með kossi sínum. Líf og dagar Díönu urðu aldrei að því ævintýri sem lafði Sarah hafði vænst. agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Allt er upprunalegt í hinum fertuga prinsessubíl.
Allt er upprunalegt í hinum fertuga prinsessubíl.
Silfurfroskurinn sem átti að minna Díönu á ævintýrið um froskinn …
Silfurfroskurinn sem átti að minna Díönu á ævintýrið um froskinn sem breyttist í prins er undurfögur stúlka kyssti hann.
Díana brúkaði Escortinn í rúmt ár. Allt er í honum …
Díana brúkaði Escortinn í rúmt ár. Allt er í honum upprunalegt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: