Mikil sala er á tengiltvinnbílum á fyrstu sex mánuðum ársins. þ.e. bílum með rafmótor og bensínvél. Alls hafa 1.675 slíkir bílar selst hér á landi það sem af er ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020 voru þeir aðeins 967 talsins.
"Tengiltvinnbílar þykja gott fyrsta milliskref fyrir þá sem vilja skipta yfir í rafbíl og keyra mikið langkeyrslu inn á milli og finnst þægilegt að geta skipt yfir í bensín- eða díselvélina þegar rafmagnið minnkar," segir í tilkynningu frá bílaumboðnu Öskju.
Fyrstu kynslóðir tengiltvinnbíla komu á markað fyrir nokkrum árum. Algengt drægi þeirra var á bilinu 20 til 30 km á rafmagninu einu saman miðað við gömlu NEDC-mælinguna. Nú eru fullkomnari kynslóðir tengiltvinnbíla komnar á markað þar sem algengt drægi er á bilinu 50 til 100 km miðað við nýju WLTP-mælinguna. Sú mæling er mun raunhæfari en sú eldri enda framkvæmd við eðlileg skilyrði, raunhæfan akstur, hitastig, aksturslag ökumanns o.s.frv.
"Komið hefur í ljós að WLTP stenst mjög vel við íslenskar aðstæður, þar sem flestir aka að meðaltali 30 til 50 km á degi hverjum. Þess vegna er ekki óraunhæft að halda því fram að tengiltvinnbíll með 50 til 70 kílómetra drægi henti afar vel á Íslandi, þar sem hægt er að aka á rafmagninu einu flesta daga vikunnar og grípa til bensínvélarinnar á lengri ferðalögum," segir Askja ennfremur.
Að sögn Jónasar Kára Eiríkssonar, forstöðumanns vörustýringar hjá bílaumboðinu Öskju, eru framleiðendur að auka drægi og tækni í hverri nýrri kynslóð sem kemur á göturnar. ,,Fyrsta kynslóðin var ekki með mikla drægi en nýjasta kynslóð tengiltvinnbíla hentar Íslandi afar vel. Við sjáum margar gerðir tengiltvinnbíla sem eru að fara vel yfir 50 km. á hverri hleðslu og þeir allra bestu allt að 100 km. Flestir ná því öllum sínum akstri á rafmagni á venjulegum dögum. Fólk er að setja upp heima hjá sér hleðslustöðvar og nýjar hraðhleðslustöðvar eru nú væntanlegar til landsins, t.d. frá N1 sem hefur nýlega kynnt um uppsetningu 20 öflugra stöðva sem eru væntanlegar frá og með síðla sumars. Tengiltvinnbílaeigendur njóta auðvitað góðs af þeim eins og rafbílaeigendur, þó yfirleitt hlaði tengiltvinnbílaeigendur heima hjá sér eða í vinnunni," segir Jónas Kári.
Kia er söluhæsta einstaka bílamerkið í sölu tengiltvinnbíla á árinu en alls hafa 293 slíkir Kia selst á fyrstu sex mánuðunum. Volvo er í öðru sæti með 191 bíl og Mitsubishi í því þriðja með 164 selda tengiltvinnbíla. Jeep er í fjórða sætinu með 159 og Mercedes-Benz í því fimmta með 122.