Rivian fær 2,5 milljarða dala innspýtingu

Rafbíla Rivian er beðið með eftirvæntingu víða um heim.
Rafbíla Rivian er beðið með eftirvæntingu víða um heim.

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Rivian tilkynnti á föstudag um lok nýrrar fjáröflunarlotu þar sem félaginu tókst að safna 2,5 milljörðum dala.

Samhliða þessu greindi Rivian frá að fyrirtækið sé að athuga möguleikann á að opna aðra verksmiðju í Bandaríkjunum, sem heimildir Reuters segja að verði notuð til að framleiða rafhlöður.

Rivian hefur um árabil unnið að þróun og smíði raf-jeppans R1S og raf-pallbílsins R1T og eru fyrstu bílarnir væntanlegir á markað innan skamms. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í Illinois og hefur til þessa aflað um 10,5 milljarða dala hjá fjárfestum, með Amazon og Ford fremst í flokki. Voru bandaríski netverslunarrisinn og bílaframleiðandinn einnig í hópi stærstu fjárfesta í nýju fjármögnunarlotunni, auk fjárfestingafélagsins T. Rowe Price.

Nýja fjármögnunarlotan verður nýtt til að auka framleiðslugetu Rivian á Bandaríkjamarkaði og leggja grunninn að sölu á heimsvísu. Félagið verður skráð á hlutabréfamarkað í lok þessa árs og vonast stjórnendur Rivian til að samanlagt markaðsvirði við skráningu verði a.m.k. 50 milljarðar dala.

Til stóð að afhenda fyrstu eintökin af R1T í júli en tafir vegna kórónuveirufaraldursins urðu til þess að fresta þurfti afhendingu fram til september. Fyrstu kaupendur munu fá R1S í hendurnar með haustinu. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: