Eftir langan dag, flug á Stokkhólm og þaðan yfir til Palma á Mallorca voru fáeinir dropar eftir á tankinum – flugþreytan er alltaf eins. Þrátt fyrir varúðarráðstafanir gekk þó vel að komast í gegnum flugstöðina og 23 stiga hiti var góð tilbreyting eftir kaldasta sumar í manna minnum hér heima.
Og þótt dagurinn væri orðinn langur var enn ferðalag fyrir höndum. Klukkutíma akstur frá höfuðstaðnum á vesturhluta eyjarinnar og yfir á austurhluta hennar, nánar tiltekið á hið glæsta Cap Vermell Grand Hotel og var áætlaður ferðatími um klukkustund.
Ég sá hótelið í hillingum, kannski einn kaldan og svo auðvitað sturtuna og rúmið. En svo var lyklunum vippað á mig og þarna stóð hann, steingrár og glansandi. Nýjasti ættingi Lexus-fjölskyldunnar ES300h sem leysir af hólmi eldri útgáfu sem kynnt var á Evrópumarkaði árið 2018 en á sér lengri sögu sem teygir sig átta „kynslóðir“ aftur eða til ársins 1989 þegar fyrsti ES-bíllinn var kynntur á bílasýningu í Bandaríkjunum.
Og ég var ekki lagður af stað þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti ekkert að flýta mér í háttinn. Dúnmjúk leðursætin og aðgengileg stjórntækin gerðu mér strax ljóst að ferðaþreytan hvarf sem dögg fyrir sólu. Ekki skemmdi fyrir að bíllinn var búinn 17 hátölurum úr smiðju Mark Levinson (PurePlay) og það kallaði á að áður en lagt væri af stað næði maður góðri tengingu við alnetið og Spotify og setti upp örlítinn lista yfir tónverk ný og gömul, sem reynt gætu á þanþol stórkostlegs hljóðkerfis.
En þótt tónlistin geti verið mikilvægur hluti upplifunarinnar þegar ekið er, grundvallar það þó hvorki þægindin né akstursupplifunina sem slíka – það gerir bíllinn einn.
Og fyrsta tilfinningin þegar sest er um borð í ES er að þar fari stór bíll. Hann er þó eins konar smáútgáfa af hinum gríðarstóra LS sem er lúxuskerra í fullri stærð og með verðmiða eftir því. ES var raunar kynntur á markað á sínum tíma til þess að brúa bilið milli LS og fólks sem ekki á olíulindir eða fjárfestingarbanka.
Þótt upplifunin sé sú að bíllinn sé stór þá er það að mestu hugarástand og innanrýmið, einkum fyrir farþega í aftursætum er ekki umfram það sem búast má við í millistórum fólksbíl. Það er fremur umgjörðin öll sem segir manni að maður sé kominn um borð í flaggskip.
Að því leyti er hann einnig stór í sniðum. Ekki kvikasti bíllinn í sínum stærðarflokki (hestöflin 218) og verður ekki ræddur sem verkfæri til þess að uppfylla sportlegar þarfir fólks á miðjum aldri (ES 300h F SPORT gerir heiðarlega tilraun til þess en það er útlistmál umfram allt).
Mæti maður ES 300h á þeim forsendum sem hann er byggður stendur hann undir öllum væntingum og vel það. Hann er stimamjúkur, ekki síst þegar kemur að því að hægja ferðina.
Og yfirhönnuður bílsins Yasuo Kajino færði þessa upplifun ágætlega í orð þegar hann sagði: „markmið okkar með nýja ES 300h var að dýpka gæði akstursins og auka á tilfinninguna fyrir bílnum enn frekar. Auk þess að gera hann hljóðlátari og þægilegri í akstri, bættum við enn frekar línulega hreyfingu hans, hemlunartæknina og stjórntækin, þannig að þau brygðust af trúmennsku við ætlun bílstjórans.“
Það er margs konar búnaður sem miðar að því að uppfylla þetta markmið Kajino og félaga. En sennilega leikur þar tvinnvélin stærra hlutverk en annað en þar er Lexus/Toyota á heimavelli. Ekkert fyrirtæki hefur náð jafn mikilli fullkomnun í að safna orku, sem annars færi til spillis í því skyni að nýta hana til hreyfiafls fyrir ökutækið.
Kannski má segja að þar hafi fyrirtækið orðið fórnarlamb eigin árangurs og fyrir vikið orðið á eftir mörgum öðrum öflugum framleiðendum við þróun tengil-tvinn tækninnar (en það stendur til bóta, m.a. með nýjum NX sem síðar verður fjallað um á þessum vettvangi). Nefni ég tvinnmótorinn, m.a. í sambandi við hemlunartæknina sem gefur bílnum ótrúlega mýkt, jafnvel þegar látið er reyna á tækið. Þar er eitthvað sem lúxus-pésar sem vilja hafa það notalegt mættu kynna sér frekar.
Í bílnum sem Mallorca var þveruð á, voru myndavélaspeglar. Tók mig nokkurn tíma að venjast þeim, ekki síst þar sem ekið var í myrkri (þá sýnir myndavélin myrkur rétt eins og speglar gera).
Vandist þetta kerfi furðufljótt og eftir á að hyggja hefur Lexus fundið betri staðsetningu fyrir skjáina en margir keppinautarnir (m.a. Audi) og þótt þeir virki nokkuð groddalegir þar sem þeir standa upp úr endum mælaborðsins gera þeir sitt gagn og eru nærri sjónlínu ökumanns í flestum aðstæðum.