Sigríður Rakel Ólafsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Bílaumboðsins Öskju. Askja er umboðsaðili á Íslandi fyrir Mercedes-Benz, Kia og Honda.
Sigríður Rakel kemur til Öskju frá Ölgerðinni og hefur undanfarin ár starfað þar sem vörumerkjastjóri þar sem hún bar m.a. ábyrgð á vörumerkjum PepsiCo í gosi og snakki, t.a.m. Pepsi Max, Lay‘s og Doritos.
Sigríður Rakel hefur góða reynslu úr íslenskum markaðsheimi en hún starfaði einnig um árabil sem markaðsstjóri Cintamani og áður vörumerkjastjóri hjá Halldóri Jónssyni. Sigríður er með B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands í sálfræði og stundaði einnig Msc. nám í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum við sama skóla, að því er segir í tilkynningu frá Öskju.
Þar segir ennfremur að markaðshlutdeild Öskju hafi verið sú hæsta frá upphafi á árinu 2021 og hafi Askja þá verið annað stærsta bílaumboð hér á landi um leið og Kia var söluhæsta tegundin á Íslandi í flokki fólksbíla.