Rafbíllinn Hyundai Ioniq 5 átti góðu gengi að fagna á alþjóðlegu bílasýningunni í New York fyrr í mánuðinum. Hreppti bíllinn aðalverðlaun sýningarinnar, World Car Awards 2022 – eða Heimsbíll ársins 2022, og var jafnframt hlutskarpastur sem rafbíl ársins og hönnun ársins.
Samanstóð dómnefnd World Car Awards af 102 bílablaðamönnum frá 33 löndum.
Í tilkynningu frá umboðsaðila Hyundai á Íslandi segir að Ioniq 5 hafi mikið hjólhaf og flatt gólf til að auka þægindi og aðgengi farþega. Þá má færa aftursætin fram um 20 sentímetra til að auka stærð farangursrýmisins, en bíllinn rúmar allt að 1.587 lítra ef sætisbökin eru felld niður. Rafhlöðukerfið er 800 volt og hægt að tengja bílinn við 200 kW hraðhleðslustöð og má þá fylla rafhlöðuna úr 10% í 80% á átján mínútum.
Á Íslandi fæst Hyundai Ioniq 5 í þremur búnaðarútfærslum: Comfort, Style og Premium, og kostar bíllinn frá 5.990 til 8.390 þús kr.
„Við erum að vonum afar ánægð með þessa miklu viðurkenningu sem Ioniq 5 hlaut í valinu World Car enda hakar hann í öll boxin að mati bílasérfræðinga,“ segir Ragnar Sigþórsson sölustjóri Hyundai á Íslandi. „Útlitið er í senn „80’s retro“ og mjög nýtískulegt, jafnvel framúrstefnulegt sem hefur hitt beint í mark meðal fólks, enda hafa mótökurnar verið einstaklega góðar. Bílarnir sem fáum seljast allir jafnóður og í augnablikinu erum við með á borðinu rúmlega 200 pantaða bíla og þeir eru allir seldir.“ ai@mbl.is