Í byrjun þessarar viku hóf orkusalinn og nýsköpunarfyrirtækið Straumlind að bjóða verulegan afslátt af rafmagni á nóttunni. Er þetta gert til að koma betur til móts við eigendur rafbíla og um leið dreifa betur álagi á orkuinnviði.
Símon Einarsson er framkvæmdastjóri Straumlindar en fyrirtækið hóf rekstur fyrir tveimur árum og hefur þegar fengið til sín mikinn fjölda notenda, m.a. í krafti þess að bjóða allt að 37% ódýrara rafmagn en sumir keppinautar.
Símon segir að til að byrja með muni aðeins viðskiptavinir Straumlindar á dreifisvæði HS veitna geta nýtt sér næturtilboðið. „Aðrar dreifiveitur eru að vinna í því að uppfæra kerfi sín svo að nýta megi til fullnustu eiginleika snjallmæla,“ segir hann um forsendur þess að geta mælt rafmagnsnotkun á ólíkum tímum sólarhringsins.
Flestar nýjar heimahleðslustöðvar eru búnar hugbúnaði sem getur stýrt hleðslustíma af nákvæmni og er auðvelt að tímastilla hleðsluna í gegnum stjórnkerfi bílsins eða í gegnum snjallsímaforrit sem talar við hleðslustöðina. Þá eru mörg heimili búin snjöllum rafmagnsmæli sem á í samskiptum við bæði hleðslustöð heimilisins og spennistöð dreifiveitunnar. Þurfa þessi kerfi öll að tala saman til að orkusalinn geti boðið afslátt af rafmagni utan álagstíma. „HS veitur eru þegar komnar með þann búnað sem þarf og ég veit að innleiðingin er langt komin hjá Orkubúi Vestfjarða. Hinar orkuveiturnar eru sömuleiðis að vinna að snjallvæðingu kerfisins þegar fram í sækir,“ segir Símon og bætir við að af þeim sem þegar eru í viðskiptum við Straumlind séu um þúsund heimili á svæði HS veitna og með snjalla hleðslustöð, og geti því byrjað strax að nýta næturafsláttinn.
Önnur heimili á dreifisvæði HS veitna þurfa að færa viðskipti sín til Straumlindar til að eiga kost á afslættinum og segir Símon einfalt og fljótlegt að flytja viðskiptin á heimasíðu Straumlindar.
Nemur afslátturinn 30% á milli 2 og 6 um nóttina sem er sá tími sólarhringsins þar sem rafmagnsnotkun er í lágmarki.