Opinn sportbíll af gerðinni DBR22 frá Aston Martin var valinn fallegasti bíllinn á sýningunni Chantilly Arts & Elegance sem haldin var norður af París um síðustu helgi.
DBR22 er tveggja sæta hugmyndabíll sem Aston Martin frumsýndi á bílahátíðinni í Monterey í ágúst síðastliðnum. Sækir hönnun bifreiðarinnar innblástur til opinna sportbíla fyrri tíma, en undir húddinu er tólf strokka vél og kemst tryllitækið úr kyrrstöðu í 100 km/klst á 3,5 sekúndum.
Á sýningunni, sem styrkt var af armbandsúraframleiðandanum Richard Mille, mátti líta bifreiðar af öllum mögulegum gerðum, bæði nýjar og gamlar, og voru veitt verðlaun í ýmsum flokkum. Þannig hlaut Citroen SM Mylord Cabriolet Chapron frá 1972 verðlaun Fornbílasamtaka Frakklands, Renault R5 Turbo 3E hlaut áhorfendaverðlaun, og DS E-Tense fékk viðurkenningu fyrir nýsköpun. Í hópi bíla frá því fyrir seinni heimstyrrjöld varð hlutskarpastur Hispano-Suiza H6C Dubonnet Xenia árgerð 1938, en í hópi nýlegri fornbíla þótti Talbot Lago T26 GS Barchetta Motto, árgerð 1950, bera af. ai@mbl.is