Stefna á kolefnishlutleysi árið 2040

Toyota BZ4X gengur eingöngu fyrir rafmagni.
Toyota BZ4X gengur eingöngu fyrir rafmagni.

Toyota í Evrópu hefur sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi í framleiðslu á bifreiðum sínum árið 2040, tíu árum fyrr en áður var áætlað.

Þetta kom fram á hinni árlegu Kenshiki ráðtefnu Toyota sem haldin var í Brussel í síðustu viku. Á henni kynnir framleiðandinn nýjar bifreiðar auk þess sem kynntar eru áherslur í tækninýjungum, framleiðslu, samfélagsþáttum og fleira. „Kanshiki“ þýðir innsýn á japönsku.

Í tilkynningu frá Toyota í Evrópu í þessari viku kemur fram að félagið hafi kynnt á ráðstefnunni nýjar rafmagnsbifreiðar sem og frekari útfærslur á svonefndri plug-in hybrid lausn á nýjum Toyota og Lexus bifreiðum. Toyota hefur nú þegar náð miklum árangri í minnkun útblásturs á nýjum bílum í Evrópu.

Markaðshlutdeild Toyota í Evrópu er um 7,3% á þessu ári og hefur vaxið um tæpt prósentustig á milli ára. Þannig er Toyota næstmest seldi bíllinn í Evrópu í ár.

Byggja tækni- og samgönguþorp í Japan

Þá kynnti Toyota jafnframt byggingu sérstaks tækniþorps í Japan, sem þegar hefur fengið nafnið Woven Planet. Þorpinu má lýsa sem nokkurs konar nýsköpunarsetri, þar sem frumkvöðlum gefst færi á að starfa um tíma við að þróa og prófa nýja tækni sem styður við samgöngur í víðu samhengi. Það einskorðast þó ekki við bíla eina og sér, heldur er einnig horft til fjölbreyttari leiða fyrir einstaklinga til að komast á milli staða. Lögð var áhersla á hreyfanleika (e. mobility) í hvers konar formi, hvort sem er á bílum, hlaupahjólum, litlum farþegavögnum og þannig mætti áfram telja.

Hér má sjá líkan af því hvernig tækni- og samgönguþorpið …
Hér má sjá líkan af því hvernig tækni- og samgönguþorpið Woven City mun líta út.

Með hreyfanleika að leiðarljósi var einnig kynnt tækni sem mun breyta bæði bifreiðum sem og öðrum tækjum sem notuð er dags daglega á heimilum fólks, við vöruafhendingu, miðlun upplýsinga og svo framvegis.

mbl.is