Ég gafst upp og keypti mér bíl

Strætisvagnar eru oft og tíðum á undan áætlun. Ekki er …
Strætisvagnar eru oft og tíðum á undan áætlun. Ekki er gott að reiða sig á slíkan samgöngumáta. mbl.is/Árni Sæberg

Höfuðborg­ar­svæðið er skipu­lagt fyr­ir bíla, ekki fólk. Það virðist seint ætla að breyt­ast og þess vegna er allt eins gott að kaupa bara bíl. En þarf þetta að vera svona?

Eft­ir­far­andi pist­ill birt­ist fyrst í bíla­blaði Morg­un­blaðsins:

Ég keypti mér bíl fyr­ir um mánuði. Þá hafði ég varið þrem­ur og hálfu ári á þessu landi án bíls. Nýi bíll­inn minn er því einn af þeim rúm­lega 70 bíl­um sem bætt­ust við um­ferðina á höfuðborg­ar­svæðinu þá vik­una, miðað við meðal­töl­ur frá ár­inu 2016 og til dags­ins í dag.

Og já, hann er bók­staf­lega nýr. Aldrei hélt ég að ég myndi kaupa nýj­an bíl. Og raun­ar hafði ég ætlað mér að kom­ast sem lengst af án þess að eiga bíl yf­ir­höfuð. En ég ent­ist ein­fald­lega ekki leng­ur. Hér fylg­ir stutt og kannski á köfl­um drama­tísk reif­un á ástæðum þess, sem er vís til að ergja liðsmenn beggja þeirra fylk­inga sem ríf­ast um skipu­lagið á höfuðborg­ar­svæðinu. Farið er um víðan völl og eru les­end­ur jafn­framt varaðir við því.

Árið 2019 flutti ég úr landi og til Vín­ar­borg­ar. Seldi um leið bíl­inn minn, enda hafði ég litla þörf fyr­ir hann þar sem ég var að fara. En það sem mig hafði ekki órað fyr­ir er hversu litla þörf all­ir aðrir þar höfðu sömu­leiðis, hvort sem var fyr­ir minn bíl eða sinn eig­in.

„Heil Hitler!“ var kveðjan sem viðskiptavinur Strætó bs. fékk að …
„Heil Hitler!“ var kveðjan sem viðskipta­vin­ur Strætó bs. fékk að heyra, í stað þess að fá far með vagn­in­um í Mjódd­ina sam­kvæmt áætl­un. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Ekk­ert mál að ganga um borð

Í Vín eru al­menn­ings­sam­göng­ur nefni­lega í há­veg­um hafðar. Sama hvar maður er stadd­ur, þá er maður aldrei langt frá næsta spor­vagni, stræt­is­vagni eða neðanj­arðarlest. Alla þessa sam­göngu­máta nýtti ég í hverri viku.

Fólk kipp­ir sér held­ur ekki upp við að rek­ast á for­seta sam­bands­rík­is­ins í neðanj­arðarlest­inni. Minn­ir á ágætt mál­tæki: „Þróað land er ekki staður þar sem þeir fá­tæku eiga bíla. Held­ur þar sem þeir ríku nota al­menn­ings­sam­göng­ur.“

Og vilji maður ganga um borð er það ekk­ert mál. Eng­inn miði, ekk­ert til að skanna, eng­inn til að stöðva þig. Þú ferð bara leiðar þinn­ar án þess að hugsa þig tvisvar um.

Að sjálf­sögðu er greiðslu kraf­ist. Farþeg­arn­ir hafa ein­fald­lega, þegar þarna er komið sögu, þegar greitt fyr­ir miðann sinn, hvort sem það er stak­ur miði eða kort til árs, mánaðar eða viku. Það gerði ég auðvitað líka, ásamt nærri 100% farþega sam­kvæmt niður­stöðum reglu­bund­ins eft­ir­lits þar í borg. Kom ég auga á það ekki oft­ar en tvisvar.

Leiðir af sér minni um­ferð

Lífs­gæðin tengd svona kerfi verða seint met­in til fjár. Af þessu leiðir að það er margt verðmæt­ara sem maður get­ur varið tíma sín­um og pen­ing­um í, í stað þess að kaupa og halda úti bíl. Þetta set­ur líka óneit­an­lega mark sitt á borg­ina.

Ein af­leiðing þessa er nefni­lega sára­lít­il um­ferð. Ég bjó til­tölu­lega miðsvæðis og göt­urn­ar í kring­um mig voru yf­ir­leitt nær laus­ar við nokkra um­ferð, þrátt fyr­ir miklu þétt­ari byggð en í Reykja­vík og fjölda til­tækra bíla­stæða, auk versl­ana.

Vita­skuld upp­fylla al­menn­ings­sam­göng­ur ekki all­ar kröf­ur til sam­göngu­máta, sem geta verið af ýmsu tagi. Ég leigði því stund­um bíl þegar ég brá mér út fyr­ir Vín­ar­borg, en samt sjaldn­ar en ég ferðaðist með lest eða rútu hand­an borg­ar­mark­anna.

Það var líka ekk­ert mál að fá bíl að láni, og ég var enga stund að kom­ast út úr borg­inni. Þannig brunaði ég aust­ur­rísku hraðbraut­ina til Inns­bruck og keyrði líka suður fyr­ir Alp­ana að Bled-vatni í Slóven­íu. Bæði ferðalög al­veg ynd­is­leg og far­ar­skjót­arn­ir frá­bær­ir.

Ég lærði líka fljótt að það borgaði sig að bóka bíl með ein­ung­is einn­ar næt­ur fyr­ir­vara, til að auka lík­urn­ar á upp­færslu í stærri og betri bíl mér að kostnaðarlausu. Það er önn­ur saga.

Það lýs­ir Vín ef til vill ágæt­lega að hún hef­ur iðulega verið met­in sú borg heims­ins þar sem íbú­ar njóta mestu lífs­gæðanna. Er hún í far­ar­broddi á mörg­um slík­um list­um. Á nýj­asta lista tíma­rits­ins Econom­ist er Kaup­manna­höfn í öðru sæti, en al­mennt er mest litið til þess lista.

Á sama lista er Reykja­vík í 47. sæti. All­ar aðrar höfuðborg­ir Norður­landa eru svo nær Vín en þær eru Reykja­vík. Stokk­hólm­ur er neðst þeirra í 21. sæti, Ósló þar fyr­ir ofan í 20. sæti og Hels­inki skip­ar 12. sæti.

Óeðli­legt líf heima á Íslandi

Það kem­ur því ef til vill ekki á óvart að því fylgdu mik­il viðbrigði að flytja aft­ur til Íslands og á höfuðborg­ar­svæðið. Þrátt fyr­ir að Ísland sé nán­ast borg­ríki með risa­stór­an og fal­leg­an þjóðgarð þá er höfuðborg­ar­svæðið skipu­lagt með þeim hætti að nær all­ir þurfa bíl til að geta lifað eðli­legu lífi.

Ég til­einkaði mér því óeðli­legt líf, og gerði mun minna. Það var líka auðvelt og eig­in­lega fyr­ir­skipað í ástand­inu sem kennt er við nýju kór­ónu­veiruna, enda mun minna um að vera sök­um mis­gáfu­legra sam­komutak­mark­ana stjórn­valda.

En eft­ir því sem stjórn­völd sáu að sér og yf­ir­lýst ástand tók að fjara út, með til­heyr­andi fjölg­un þeirra dauðsfalla sem koma hafði átt í veg fyr­ir (aft­ur, önn­ur saga), þá varð mér smám sam­an ljóst að ég vildi ekki lifa svona óeðli­legu lífi áfram.

Ég var ein­fald­lega orðinn eirðarlaus og saknaði þess lífs sem ég lifði áður en ég flutti út til Vín­ar. Og hvað þá ef ég miða við tím­ann úti í Vín. Ég gekk í vinn­una og svo var það yf­ir­leitt bara rækt­in, sund­laug­in og mat­vöru­versl­un­in. Að vísu hef ég búið svo um að ég bý í þriggja mín­útna fjar­lægð frá þessu öllu fyr­ir utan vinn­una, en þangað er hálf­tíma ganga sem tek­ur mig meðal ann­ars yfir Elliðaárn­ar.

Ég vildi gera eitt­hvað meira en eig­in­lega bara þetta.

En af hverju ekki að nota strætó? Eðli­leg spurn­ing. Kannski er svarið það líka. Að feng­inni reynslu af viðskipt­um við Strætó forðast ég eins og heit­an eld­inn að gefa þessu byggðasam­lagi pen­ing­ana mína, sem hafa jafn­vel verið innt­ir af hendi í skipt­um fyr­ir ekki neitt.

Tvisvar á síðustu tveim­ur árum hef ég þannig látið á það reyna að taka stræt­is­vagn úr miðborg Reykja­vík­ur og til vinnu í Há­deg­is­mó­um. Jú, vissu­lega gæti fyr­ir­tækið verið bet­ur staðsett með til­liti til al­menn­ings­sam­gangna, en þetta blessaða byggðasam­lag gef­ur sig út fyr­ir það að þjón­usta Há­deg­is­móa samt sem áður.

Sam­kvæmt leiðakerfi Strætó þarf að taka tvo stræt­is­vagna til að kom­ast að Há­deg­is­mó­um úr miðborg­inni. Eðli­legt, svo sem. En í raun­veru­leik­an­um þarf að taka einn stræt­is­vagn til þess að kom­ast svo að því að maður þarf að taka leigu­bíl það sem eft­ir er af leiðinni.

Strætó bs. er nefni­lega al­veg inni­lega sama um gæði þeirr­ar þjón­ustu sem því er ætlað að veita. Sú er að minnsta kosti reynsla margra þeirra sem neyðst hafa til að skipta við þetta apparat.

Ráðvillt­ir ferðamenn víða

Í fyrri ferðinni tók ég leið 6 upp í Ártún, þar sem ann­ar vagn átti að taka við og færa farþega lengra inn í Árbæ­inn og upp í Móa. Sá var þegar far­inn, enda var leið 6 um það bil mín­útu of sein og það þrátt fyr­ir enga telj­an­lega skrýtna um­ferð.

Hálf­tími var til þess næsta og fjöl­skylda, er­lend­ir ferðamenn, stóð þarna ráðalaus þar til ég gat sagt þeim hvernig væri í pott­inn búið. Næsta mál á dag­skrá var svo að rölta yfir á N1 í Ártúni og fá þangað leigu­bíl.

Aft­ur lét ég á þetta reyna nú í lok sum­ars. Tók þá stræt­is­vagn drjúg­an hluta Hverf­is­göt­unn­ar, en var að vísu rétt ókom­inn á Hlemm þegar ég náði loks að borga með til þess gerðu appi. Um hálfri mín­útu síðar, þá á Hlemmi, rann upp fyr­ir mér að ég hefði bet­ur sleppt því að borga. Næsti vagn, sem leiðakerfið hafði sagt mér að taka, var þá löngu far­inn og vita­skuld langt á und­an áætl­un.

Og það að vera á und­an áætl­un er svo miklu verra en að vera seinn, í ljósi þess að yf­ir­leitt ganga vagn­ar Strætó með 20-30 mín­útna milli­bili.

Á Hlemmi mættu mér einnig örvinglaðir jap­ansk­ir ferðamenn, en þeim hef­ur vænt­an­lega liðið eins og þeir væru lent­ir á ann­arri reiki­stjörnu þar sem enn ætti eft­ir að kynna inn­fædd­um al­menn­ings­sam­göng­ur. Þeir höfðu, eins og ég, misst af vagn­in­um sem lagt hafði af stað vel fyr­ir áætlaðan tíma. Þeir virt­ust sætta sig við að bíða eft­ir þeim næsta, en spurðu mig hvenær þeir þyrftu að yf­ir­gefa vagn­inn til að ná Viðeyj­ar­ferj­unni.

Íslensk hönnun. Ég myndi ekki lá yngstu kynslóðinni það, að …
Íslensk hönn­un. Ég myndi ekki lá yngstu kyn­slóðinni það, að reyna að styðja fingr­in­um á kalt glerið í von um að sjá fleiri stoppistöðvar. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Hvert send­ir maður reikn­ing­inn?

Höfðu Jap­an­irn­ir þá rýnt í leiðakerf­is­spjald við hlið okk­ar en ekki komið auga á þá stoppistöð sem þeir höfðu lesið sér til um. Skýr­ing­in var ein­föld og hef­ur blasað við mörg­um farþeg­an­um síðustu árin. Jú, Strætó hef­ur valið að gera spjöld sín þannig úr garði að ein­hvers kon­ar felli­gluggi feli meiri­hluta stoppistöðvanna, sé langt í enda­stöð á viðkom­andi spjaldi.

Málið er að, öf­ugt við net­heima, þá er ekki hægt að smella til að sjá meira. Kalt og viðmóts­snautt gler mæt­ir þeim þumli sem það reyn­ir. Sá hluti blaðsins sem átti að sýna Japön­un­um stoppistöðina þeirra var því auður og hvít­ur.

Ég gat sem bet­ur fer gúglað fyr­ir þá og sagt þeim hvar þeir þyrftu að fara út. Mætti ég miklu þakk­læti. „Af­sakið þetta, en al­menn­ings­sam­göng­urn­ar okk­ar sökka,“ gæti ég hafa sagt. Ég vona bara að fleiri ferðamenn þori að spyrja okk­ur sem byggj­um þetta land, því ekki veit ég hvernig þeir eiga öðru­vísi að rata um þetta kerfi.

Að þessu loknu var lítið annað að gera en að ganga yfir að biðstöð leigu­bíla og upp í einn slík­an, með kortið enn heitt eft­ir stuttu strætó­ferðina, og borga nú fyr­ir leigu­bíl­inn út að jaðri borg­ar­inn­ar. Ég spyr bara: Hvert send­ir maður reikn­ing­inn? Hefði skrif­stofa Strætó und­an, byði hún upp á slíkt?

Í það minnsta sagði leigu­bíl­stjór­inn mér að leiðakerfi Strætó væri stétt sinni afar at­vinnu­skap­andi. Þessi van­skapnaður er þá að minnsta kosti ein­hverj­um arðbær.

Fleiri sög­ur af Strætó bs.

Ég má til með að bæta við fleiri reynslu­sög­um. Ensk vin­kona mín, sem flutti til lands­ins fyr­ir rúm­um þrem­ur árum, fékk al­deil­is óblíðar mót­tök­ur frá byggðasam­lag­inu fyrstu mánuðina sína hér.

Hún hafði ekki dvalið hér lengi þegar hún var boðuð í at­vinnu­viðtal. Gerði hún sig reiðubúna og fór sér­stak­lega tím­an­lega út á biðstöðina til að taka stræt­is­vagn í viðtalið. Nema hvað, svo kem­ur strætó og hún, með hönd­ina út­rétta, þarf að horfa á hann þjóta fram­hjá sér.

Frá sím­svara Strætó feng­ust eng­ar skýr­ing­ar. En aft­ur, þá var ekk­ert annað til ráða en að hringja á leigu­bíl, fá hann á stoppistöðina og borga hon­um fyr­ir farið í viðtalið. Náðist það rétt í tæka tíð. Að reiða sig á þjón­ustu Strætó bs., það er að leggja tíma sinn og pen­ing að veði.

Önnur reynslu­saga er­lendr­ar vin­konu minn­ar er öllu óskemmti­legri. Var hún þá kom­in með vinnu í miðborg­inni og hugðist taka stræt­is­vagn heim í lok vakt­ar. Hún komst vissu­lega um borð en þegar vagn­inn átti að beygja af Reykja­nes­braut­inni og í Mjódd þá ein­fald­lega gerði hann það ekki.

Hana grunaði að ekki væri allt með felldu og vakti máls á þessu við bíl­stjór­ann. Hann kvaðst ekki hafa séð hana en að hann gæti ekki snúið við úr þessu. Nú þyrfti hann að keyra hana í Hafn­ar­fjörð.

Siðmenn­ing­in er aðeins lengra á veg kom­in í henn­ar heimalandi. Var hún enda gáttuð á þessu. En áfram keyr­ir bíl­stjór­inn, með hana eina um borð og komið fram yfir miðnætti að vetri til. Hann stöðvar svo vagn­inn ein­hvers staðar í Hafnar­f­irði, hleyp­ir henni út og geng­ur inn í ein­hvers kon­ar kaffi­stofu vagn­stjóra þar, sem þá höfðu einnig lokið við sinn akst­ur. Hún átti að fylgja á eft­ir.

„Heil Hitler!“ var kveðjan sem hon­um mætti frá viðstödd­um við inn­kom­una á kaffi­stof­una. Vin­konu mína, sem ekki er vön slík­um kveðjum eins og segja má um ef til vill flesta, rak í rogastans. Hún reyndi þó að láta á litlu bera held­ur gekk líka ró­lega inn á kaffi­stof­una. Það var vissu­lega þægi­legra að vera inn­an um fleiri en bara bíl­stjór­ann.

Og fólkið varð kannski dá­lítið kauðslegt. Vin­kona mín átti auðvitað ekki að vera þarna. Það vissu all­ir og líka hún. Að vísu ör­ugg­lega ekki stjórn­end­ur Strætó. Þeir vissu ekki neitt. Sváfu heima hjá sér og keyrðu í vinn­una dag­inn eft­ir.

Hún var að lok­um keyrð heim, í sama vagni og all­ir strætóbíl­stjór­arn­ir. En bara eft­ir að þeir höfðu fengið kaffið sitt.

Spæn­um upp mal­bikið

Auðvitað hef­ur hún oft síðan lent illa í Strætó, enda neyðst til að skipta við apparatið miklu meir en ég. Iðulega fæ ég að heyra hvernig vagn­ar hafi verið á und­an eða eft­ir áætl­un eða jafn­vel ekki látið sjá sig. Og alltaf sann­fær­ist ég bet­ur um að það hafi verið rétt ákvörðun að slíta þessu rysj­ótta viðskipta­sam­bandi.

En hvað er þá til ráða? Jú, ég velti því fyr­ir mér að kaupa raf­hjól. Eða að halda áfram að ganga. Slíku at­ferli fylg­ir þó sá galli að maður held­ur áfram að anda að sér því svifryki sem dekk­negld­ir bíl­ar þeyta upp helm­ing árs­ins.

Gang­an ofan í Elliðaár­dal­inn úr Breiðholti er vissu­lega heilsu­sam­leg en gang­an þaðan og yfir Suður­lands­veg­inn hef­ur ef til vill þegar stytt ævi mína um nokkra mánuði, ef litið er til meðaltala.

Talið er að um 80 ótíma­bær dauðsföll megi ár­lega rekja til svifryks­meng­un­ar á Íslandi. Þeir sem draga and­ann ut­an­dyra, í kyrrviðri á vetr­ar­dög­um, borga með heilsu sinni reikn­ing þeirra sem bruna fram­hjá þeim og spæna upp þurrt mal­bikið.

Spáið í það. Við höld­um börn­um inn­an­dyra á leik­skól­um á feg­urstu vetr­ar­dög­un­um, bara svo við get­um haldið áfram að spæna upp mal­bikið á nagla­dekkj­um, sem í til­viki lang­flestra eru óþörf. Íslenskt sam­fé­lag mun fyrr gefa börn­un­um gasgrím­ur til að leika úti en að gefa upp nagla­dekk­in.

En sann­ast sagna nennti ég held­ur ekki öðrum vetri af því að strita við að kom­ast til vinnu. Nóg er stritið nú þegar.

Og jú, ég hefði getað keypt ódýr­ari bíl. Notaðan bíl jafn­vel. En þegar rík­is­stjórn­in niður­greiðir nýja raf­bíla um 1,3 millj­ón­ir króna þá er það óneit­an­lega freist­andi að ganga að því boði. Ég er að minnsta kosti ekki einn um að líta svo á, ef marka má sölu­töl­ur síðustu mánaða.

Og nei, ég er ekki á nagla­dekkj­um. En ég vil endi­lega halda áfram að tala um Strætó. Hvað var eig­in­lega að Strætó-app­inu? Af hverju var hundruðum millj­óna steypt ofan í annað app?

Ár er nú liðið frá því Strætó bs. viður­kenndi að lyk­il­atriði greiðslu­kerf­is þess, skann­ar Klapp-apps­ins sem notaðir eru í vögn­un­um, virkuðu illa og að til stæði að skipta þeim öll­um út.

Al­var­leg mis­tök virðast hafa verið gerð með kaup­um og inn­leiðingu á greiðslu­kerfi Strætó bs., að því er fram kom í kynn­ingu Strætó á árs­fundi byggðasam­lags­ins í fyrra. Farþegar Strætó hafa enda ít­rekað kvartað und­an greiðslu­kerf­inu síðan það var tekið í notk­un fyr­ir um tveim­ur árum.

Þegar ég hef neyðst til að skipta við Strætó hef ég oft orðið var við að mun lengri tíma tek­ur fyr­ir farþega að fara um borð en áður. Eru þeir þá hver af öðrum að berj­ast við að láta skanna vagns­ins nema QR-kóða í sím­an­um sín­um, sem af ein­hverj­um ástæðum er ekki lát­inn fylla út í skjá­inn eins og tíðkast í not­enda­væn­um öpp­um.

Í meira en tvo ára­tugi hef­ur Ísland verið í far­ar­broddi við inn­leiðingu greiðslu­korta­lausna. Í það minnsta þarf varla reiðufé hér á landi og hef­ur varla þurft í tutt­ugu ár.

Af hverju ekki posa­kerfi?

Upp­lýs­inga­full­trúi Strætó var því spurður, fyr­ir tveim­ur árum, eða í des­em­ber 2021:

Hvers vegna ekki að inn­leiða hefðbundið posa­kerfi?

„Ástæðan fyr­ir því að venju­leg posa­kerfi eru sjald­an notuð í al­menn­ings­sam­göng­um úti í heimi er í raun bara til að spara tíma. Í flest­um til­vik­um eru notaðir skann­ar til að flýta fyr­ir greiðslunni eins og maður sér í Lund­ún­um og víðar. Það er bara miklu fljót­legra. Við sjá­um þó fram á það að fólk geti farið að borga snerti­laust í strætó með kort­um, Apple Pay og Sam­sung Pay á næsta ári. Þá verður þetta orðið ennþá aðgengi­legra. Þetta er allt að koma.“

Rétt’ upp hönd sá sem hef­ur borgað með korti, Apple Pay eða Sam­sung Pay fyr­ir strætó­ferð í ár. Eða á síðasta ári, eins og upp­lýs­inga­full­trú­inn nefndi. Ætli hann hafi meint árið 2024, þegar hann sagði „á næsta ári“ árið 2021?

Strætó út­hýst við Leifs­stöð

Þetta greiðslu­kerfi þvæl­ist nefni­lega meira fyr­ir en Íslend­ing­ur gæti í fljótu bragði haldið. Fjöldi ferðamanna hér á landi er á hverju ári tal­inn í millj­ón­um. En sum­ir þeirra vill­ast upp í vagna Strætó bs., eins og dæm­in að ofan sanna.

Strætó er að vísu út­hýst við Leifs­stöð á Kefla­vík­ur­flug­velli, á sama tíma og val­in rútu­fyr­ir­tæki fá þar greiðan aðgang að flug­stöðinni. Og rati ferðamenn þangað þurfa þeir að hír­ast í litlu skýli, eða utan þess, séu þeir fleiri en þrír. En þegar stigið er um borð í vagn­inn, hvernig á þá að borga? Nú, með app­inu. En með hvoru app­inu? Jú, þessu nýja sem kostaði 330 millj­ón­ir króna.

Hér tek ég fram að ég hef lengi verið yf­ir­lýst­ur stuðnings­maður borg­ar­lín­unn­ar. Hvað felst í því? Ég styð ein­fald­lega að tíðni strætó­ferða verði auk­in og að sérak­rein­ar fyr­ir stætis­vagna leyfi þeim að kom­ast hjá um­ferðartepp­um af völd­um einka­bíls­ins.

Þessu hafa marg­ir verið and­snún­ir, þrátt fyr­ir að til­koma bættra al­menn­ings­sam­gangna ætti að gefa einka­bíln­um meira rými og stuðla að því að all­ir, þar á meðal bíl­stjór­ar sem eru ein­ir á ferð í um­ferðinni, kom­ist fyrr leiðar sinn­ar.

Oft vill það gleym­ast að borg­ar­lín­an var aðeins hluti sam­göngusátt­mál­ans sem ríkið og sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu skrifuðu und­ir haustið 2019, fyr­ir fjór­um árum. Sam­kvæmt sátt­mál­an­um átti að verja meira fé í stofn­vega­fram­kvæmd­ir á höfuðborg­ar­svæðinu en í innviði borg­ar­línu og al­menn­ings­sam­göng­ur.

Lítið ból­ar á borg­ar­lín­unni

Þróun og upp­bygg­ing hús­næðis á Keldna­land­inu átti að standa und­ir stór­um hluta kostnaðar við sátt­mál­ann. Þá var gert ráð fyr­ir að með álagn­ingu nýrra um­ferðar­gjalda mætti fjár­magna sam­göngu­fram­kvæmd­irn­ar.

Lítið hef­ur bólað á því. Raun­ar hef­ur lítið bólað á borg­ar­línu yf­ir­höfuð. Á sama tíma er fram­kvæmd­um lokið við fjög­ur af þeim ell­efu stofn­vega­verk­efn­um sem sátt­mál­inn kvað á um. Fimmta verk­efnið er síðan hafið, sem er fram­leng­ing á Arn­ar­nes­veg­in­um byggð á tveggja ára­tuga gömlu um­hverf­is­mati. Og nú kalla sum­ir eft­ir því að sam­göngusátt­mál­inn verði end­ur­skoðaður. En samt bara borg­ar­línu­hluti sátt­mál­ans.

Nú hill­ir þó und­ir að ein­hver hluti borg­ar­lín­unn­ar fari að taka á sig mynd, þar sem gert er ráð fyr­ir að fram­kvæmd­ir hefj­ist bráðlega við gerð 270 metra langr­ar brú­ar yfir Foss­vog­inn.

Var í al­vöru ekki hægt að byrja ann­ars staðar og þá miklu fyrr? Hversu lengi á fólk að bíða eft­ir sérak­rein­um fyr­ir stræt­is­vagna á fleiri stofn­veg­um höfuðborg­ar­svæðis­ins? Hversu lengi á fólk að bíða eft­ir auk­inni tíðni stræt­is­vagna og bættu leiðakerfi?

Krúnu­djásn en eng­in kór­óna

Davíð Þor­láks­son, fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna ehf., seg­ir í ný­leg­um pistli að brú­in verði „krúnu­djásnið“ í fram­kvæmd­um sam­göngusátt­mál­ans. Að mínu mati hefði bet­ur farið á því að smíða fyrst sjálfa kór­ón­una, áður en haf­ist er handa við krúnu­djásnið.

Nú verður þetta krúnu­djásn án kór­ónu og því miður virðist óvissa uppi um þær fram­kvæmd­ir sem telja verður mun nauðsyn­legri til að koma bætt­um al­menn­ings­sam­göng­um á lagg­irn­ar.

Ég hef að minnsta kosti gef­ist upp á biðinni eft­ir borg­ar­lín­unni. Eins og mér leist nú vel á fyr­ir­hugaða legu borg­ar­lín­unn­ar upp í Breiðholt, rétt við íbúðina mína, þegar ég festi kaup á henni á sín­um tíma. Og verði af borg­ar­lín­unni, sem mér finnst alls óvíst eins og staðan er núna, vona ég að minnsta kosti að fyr­ir­bærið Strætó bs. verði þar víðs fjarri.

Hvernig gafst ég upp? Ég keypti bíl. Já, nú erum við kom­in hring. En þetta er bíla­blað og ég get því ekki sleppt því að minn­ast á far­kost­inn.

Einn bíll stóð einfaldlega upp úr þegar litið var yfir …
Einn bíll stóð ein­fald­lega upp úr þegar litið var yfir bíla­dóma síðustu ára. Reynsluakst­urs­bíll­inn sést hér á mynd­inni en ekki reynd­ist unnt sök­um anna að mynda nýja grip­inn, sem er stál­grár að lit. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Einn bíll stóð upp úr

Við val á bíl ákvað ég að renna yfir þá bíla sem ég hef tekið til reynsluakst­urs fyr­ir bíla­blaðið á síðustu árum. Við yf­ir­ferðina stóð einn bíll ein­fald­lega upp úr: EV6 frá Kia. Svo ég grípi niður í dóm minn frá því fyr­ir tveim­ur árum:

„Ef ökumaður er fyrst og fremst van­ur hefðbundn­um og til­tölu­lega ódýr­um jarðefna­eldsneyt­is­bíl­um, þá eru viðbrigðin tölu­verð. Væn­legt bil, sem opn­ast á milli bíla ein­hverri vega­lengd fram­ar á Miklu­braut­inni, og maður hefði eitt sinn horft löng­un­ar­aug­um til, er maður fljót­ur að fylla á öfl­ug­um raf­bíl eins og þess­um.

Og EV6 stein­ligg­ur á veg­in­um þegar tekið er á hon­um í beygj­um. „Eins og maj­ónesk­lessa,“ hafði farþegi á orði, þar sem ekið var um hlykkj­ótt­an veg í útjaðri höfuðborg­ar­inn­ar. Þyngd bíls­ins hef­ur þar nokkuð að segja, en hann veg­ur rúm tvö tonn.

Fjöðrun­in er aft­ur á móti framúrsk­ar­andi, sem ger­ir það að verk­um að þrátt fyr­ir þyngd­ina er hann alls ekki þung­lama­leg­ur. Þvert á móti er stýrið létt og bíll­inn bæði snarp­ur og snar í snún­ing­um, en beygjura­díus­inn var til að mynda minni en blaðamaður hafði bú­ist við.

Stutt­ur spöl­ur var tek­inn á mal­ar­vegi og var varla að finna að maður væri kom­inn af mal­bik­inu, svo mjúk­ur var hann í akstr­in­um. Ánægju­legt var sömu­leiðis að finna, í öll­um akstr­in­um, að veg­hljóð var nær ekk­ert. Ljóst er að bíll­inn er vel hannaður og ein­angraður upp á það að gera.“

Geggjaður bíll og gild­ir enn

Tveim­ur árum síðar get ég full­yrt að dóm­ur­inn stenst tím­ans tönn. Það ger­ir út­litið líka. Svo ég grípi aft­ur niður í dóm­inn í nóv­em­ber 2021:

„Það var ljóst að bíll­inn vakti þónokkra at­hygli á þeim ann­ars skamma tíma sem blaðamaður keyrði hann um suðvest­ur­hornið.

Seint að kvöldi síðasta laug­ar­dags, þegar blaðamaður hafði numið staðar í stæði við fjöl­farna götu, heyrði hann skyndi­lega há­vær köll út und­an sér. Í ljós kom að skammt frá, á göt­unni, höfðu nokkr­ir ung­ir dreng­ir stöðvað för­ina á sín­um bens­ín­knúna jeppa til þess eins að dást að þessu greini­lega fram­andi far­ar­tæki.

„Geggjaður bíll!“ tjáðu þeir blaðamanni, sem sagði þeim aðspurður að hann hefði ekki keypt grip­inn held­ur væri hann í reynsluakstri. Fleiri aðdá­un­ar­orð fylgdu, auk spurn­ing­ar sem hér verður ekki tal­in prent­hæf, en verður samt sem áður tal­in bíln­um til tekna.“

Enn má taka und­ir með strák­un­um. Bíll­inn er hrein­lega geggjaður.

Tóm hlýja mætir manni þegar maður sest í bílinn á …
Tóm hlýja mæt­ir manni þegar maður sest í bíl­inn á köld­um morgni. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Þæg­inda­líf og auðvelt að skreppa

Það er óneit­an­lega þægi­leg til­finn­ing að teygja sig í sím­ann á morgn­ana og að tveim­ur smell­um síðar sé bíll­inn byrjaður að hita rúður, stýri og inn­an­rými. Og að geta í há­deg­inu á laug­ar­degi ákveðið að fara í fjall­göngu fyr­ir utan höfuðborg­ar­svæðið. Eða að þurfa ekki að fá bíl lánaðan til að skjót­ast í bú­stað í Borg­ar­f­irðinum yfir helgi.

Að bíll­inn sé raf­magns­knú­inn bæt­ir svo nýrri vídd við upp­lif­un­ina. Sam­göngu­kostnaður­inn er í lág­marki, ef frá er talið allt hitt sem vissu­lega fylg­ir því að eiga og reka bíl. Bens­ín­stöðvar­stopp­in eru held­ur eng­in.

Það er í það minnsta víst að ég horfi ekki í bak­sýn­is­speg­il­inn með söknuði. Og ef ég verð aft­ur bíl­laus ein­hvern tíma í framtíðinni, þá er það lík­lega af því að ég verð þá aft­ur flutt­ur til út­landa.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Bílar »