Top Gear í Bretlandi hefur valið sportbílinn Hyundai Ioniq 5 N sem bíl ársins 2023. Bíllinn er fyrsti rafbíllinn sem Hyundai framleiðir í sportútgáfunni N. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Hyundai á Íslandi.
Sportútgáfan er mun kraftmeiri en hefðbundnu gerðirnar og búnar ýmsum frábrugðnum tæknibúnaði, t.d. í stýrirgangi og fjöðrun, sem nauðsynlegur er í kraftmiklum og togmiklum sportbílum, og framkalla um leið einstaka aksturseiginleika sem mæta stífustu óskum kröfuharðra akstursíþróttaökumanna.
Bíllinn hlaut góðar móttökur á bresku akstursíþróttahátíðinni Goodwood Festival of Speed í júlí, sem nýr og spennandi valkostur fyrir ökumenn sem vilja rafvæða ökuástríðu sína.
Meðal helstu tækninýjunga IONIQ 5 N er kraftmeiri aflrás og aukin afköst við kælingu rafhlöðu og hemla auk rafstýrðrar fjöðrunar svo fátt eitt sé nefnt.
Rafmótorar IONIQ 5 N snúast allt að 21 þúsund snúninga á mínútu og framleiða allt að 609 hestöfl við venjulegar aðstæður en 650 hestöfl þegar N Grin Boost (NGB) eiginleikinn er virkjaður. Búnaðurinn hámarkar hröðun bílsins í allt að 10 sekúndur og er hann þá einungis 3,4 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Hámarkshraðinn í braut er um 260 km/klst.
Paul Horrell, ritstjóri Top Gear og dómnefndarmaður „Bíls ársins“, segir að verkfræðingum Hyundai hafi með þróun og framleiðslu Ioniq 5 N tekist að nýta alla þá kosti sem rafbílatæknin hafi upp á að bjóða og ásamt ýmsum aukabúnaði fyrir sportbíla sé útkoman gríðarlegir miklir aksturseiginleikar sem séu langt umfram það sem búast hefði mátt við af bíl í stærðarflokki fyrir ofan þá sem algengastir eru.
Sagði Horrel að með tilkomu Ioniq 5 N hafi Hyundai í raun „flett nýrri blaðsíðu“ í bílasögunni.
Hyundai Ioniq 5 N verður fáanlegur hjá Hyundai á Íslandi með sérpöntun í samræmi við óskir viðskiptavina. Aðrar gerðir Hyundai sem fáanlegar eru frá sportbíladeild framleiðandans eru i30 N, i30 Fastback N, Kona N og i20 N, sem Top Gear valdi m.a. sem Bíll ársins árið 2021.
Á síðu Top Gear á You Tube er m.a. að finna myndband frá reynsluakstri Jack Rix frá Top Gear á Ioniq 5 N í október. Hann kallar bílinn „a Hyper Hach“ eða ofurhatchback.