Tæplega 4.000 Tesla Cybertruck-pallbílar hafa verið innkallaðir eftir aðeins fimm mánuði á markaðnum. LA Times segir frá.
Öryggisnefnd umferðar á hraðbrautum Bandaríkjanna tilkynnti um galla í inngjöfinni á bifreiðunum.
Þegar stigið er fast á inngjöfina getur hún losnað með þeim afleiðingum að hún festist niðri, að því er segir í skýrslu öryggisnefndarinnar.
Cybertruck-bifreiðarnar sem voru innkallaðar voru framleiddar frá 13. nóvember í fyrra og þangað til í apríl.
Tesla mun skipta um gallaðar inngjafir eigendum bílanna að kostnaðarlausu. Í tilkynningu frá framleiðandanum segir að ekki hafi heyrst af alvarlegum slysum vegna gallans.