Cyber Odyssey kemur til Reykjavíkur

Cybertruck-bíllinn frá Tesla.
Cybertruck-bíllinn frá Tesla. Mynd/Tesla

Tesla mun frumsýna Cybertruck á Íslandi í júní en bifreiðin verður til sýnis á völdum stöðum í Evrópu á næstu vikum.

Í tilkynningu frá Tesla á Íslandi segir að Cybertruck verði sýndur á 100 stöðum í 20 löndum. Á Íslandi verði hann frumsýndur í Tesla, Vatnagörðum 24 frá 28. júní til 30. júní. 

Stálið ver bílinn gegn dældum og rispum

„Óvenjuleg og framúrstefnuleg hönnun Cybertruck sækir innblástur í fagurfræði sæberpönksins, sem þekkt er úr myndum á borð við Blade Runner og The Spy Who Loved Me. Ytra byrðið er úr ryðfríu 30X kaldvölsuðu Ultra-Hard stáli. Stálið ver bílinn gegn dældum og rispum, auk þess sem þetta sérsmíðaða efni úr ryðfríu stáli ver gegn tæringu til lengri tíma og veitir vernd umfram það sem gengur og gerist,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Cyberbeast-útfærsla Cybertruck fer úr 0 í 100 km/klst. á aðeins 2,7 sekúndum og heldur stöðugleika á miklum hraða. Cybertruck er búinn sjálfvirkri loftfjöðrun sem skilar leiðréttingum innan millisekúndna.

mbl.is