Dagana 13. til 27. júní frumsýnir Brimborg nýjan og rafmagnaðan Peugeot E-3008 í sýningarsal bílaumboðsins við Bíldshöfða 8.
Í tilkynningu kemur fram að hönnun E-3008 feli í sér gjörbyltingu fyrir Peugeot en framleiðandinn hafði það að markmiði að flétta saman heillandi og frumlega hönnun annars vegar og akstursgleði og afköst hins vegar. Útkoman er m.a. sú að Peugeot E-3008 hlaut nýlega hin virtu Red Dot-hönnunarverðlaun og er það í níunda sinn sem Peugeot hreppir verðlaunin.
Drægni bifreiðarinnar er allt að 525 km en drifrafhlaðan er 73 kWst og framkallar mótorinn 210 hestöfl. Hleðslustýring bílsins leyfir allt að 160 kW hraðhleðslu sem þýðir að hlaða má drifrafhlöðurnar úr 20% í 80% á allt að 35 mínútum.
Við smíðina notar Peugeot í fyrsta sinn STLA-undirvagninn, sem að sögn Brimborgar setur ný viðmið í rafbílatækni og gerir vörumerkið að leiðandi rafbílamerki í Evrópu. Víðtæk sjö ára ábyrgð er á bílnum og átta ára ábyrgð á drifrafhlöðunni.
Sérstaka athygli vekur svokallað i-Cockpit farþegarými sem hefur verið hannað þannig að öll sjóntæki, mælar og skjáir eru í sjónlínu ökumanns. Innréttingin er ýmist með tveimur tíu tommu margmiðlunarskjám, í „Allure“ útfærslu, eða 21 tommu margmiðlunar- og víðmyndarskjá í GT-útfærslu.
Peugeot E-3008 mun kosta frá 7.090 þús. kr. þegar rafbílastyrkur orkusjóðs hefur verið dreginn frá. Síðar í sumar er bíllinn væntanlegur með tvinnaflrás sem hleður sig sjálfkrafa í akstri og eyðir 26% minna eldsneyti en sambærilegur bensínbíll. Er forsala á Peugeot 3008 hybrid hafin og kostar sú útgáfa frá 6.690 þús. kr.