Sportbílar Toyota verði samstarfsverkefni

Toyota hefur smíðað ófáa eftirminnilega sportbíla. Nýja Súpran hefur vakið …
Toyota hefur smíðað ófáa eftirminnilega sportbíla. Nýja Súpran hefur vakið lukku.

Stjórnendur japanska bílaframleiðandans Toyota hafa komist að þeirri niðurstöðu að það gangi ekki upp fjárhagslega fyrir félagið að hanna og smíða sportbíla alfarið á eigin vegum og því liggi beinast við, á þessu sviði starfseminnar, að efna til samstarfs við aðra bílaframleiðendur. Þetta hefur bílafréttaveitan Motor1 eftir Tomoya Takahashi sem stýrir Toyota Gazoo Racing sem er akstursíþróttasvið bílarisans og jafnframt sú deild sem annast tækniþróun fyrir svokallaðar GR-útgáfur bifreiða frá Toyota. „Sportbílamarkaðurinn mun koma til með að minnka og við munum ekki geta haldið uppi sportbílum sem sjálfstæðu vörumerki,“ sagði hann.

Toyota mun ekki gefa sportbíla upp á bátinn og þvert á móti benda fyrri yfirlýsingar stjórnenda félagsins til þess að sportbílasmíði verði vel sinnt, en lögmál markaðarins krefjist þess að fá fleiri að borðinu. Toyota hefur áður hannað og smíðað sportbíla sem samstarfsverkefni og þannig var t.d. GR86 afrakstur samstarfs við Subaru og BMW hafði hönd í bagga við framleiðslu nýju Súprunnar.

Ekkert liggur fyrir um hvaða framleiðanda Toyota gæti hugsað sér að vinna með en Motor1 segir ekki loku fyrir það skotið að Mazda verði fyrir valinu en japönsku félögin tvö eiga nú þegar í náinni samvinnu um þróun nýrrar kynslóðar bensínvéla og þá á Toyota 5% hlut í Mazda.

Þessi grein birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 18. júní

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: