Það gæti komið sumum lesendum á óvart hve miklum gögnum bílar safna nú til dags og hvert þessi gögn rata. Björn Kristjánsson, sérfræðingur og tækniráðgjafi hjá FÍB, segir marga hafa vaknað til vitundar um mikilvægi gagnaöryggis og persónuverndar og fólk reyni t.d. að lágmarka hve miklum upplýsingum vafrinn í tölvunni eða forritin í snjallsímanum fái að safna. „En fáir gera sér nægilega góða grein fyrir því að bíllinn getur verið kræfur þegar kemur að því að safna og dreifa ýmiss konar upplýsingum,“ segir Björn og bætir við að sumar bifreiðar geti safnað allt að 25 gígabætum af alls konar gögnum á hverri klukkustund.
„Í hverjum nýjum bíl í dag eru að lágmarki 100 tölvur sem allar eru að vinna saman og á hverri einustu sekúndu eru þær að sækja upplýsingar af einhverju tagi. Stóra spurningin er hvaða upplýsingar þetta eru, hvar þær eru geymdar og hver fær að nota þær.“
Björn bendir á að í flestum tilvikum tengist gagnasöfnunin búnaði sem léttir ökumanni lífið. „Öll viljum við að bíllinn hugsi fyrir okkur og aðstoði í okkar daglegu samgöngum, en um leið á sér stað mikil gagnasöfnun og þarf t.d. leiðsögukerfið að vakta staðsetningu bílsins. Tölvurnar um borð geta líka fylgst með aksturslaginu, og algengara en ekki að bílar séu með myndavélar að utan sem vakta umhverfið og jafnvel að myndavélar í farþegarýminu fylgjast með ökumanni og farþegum. Bíllinn veit líka hvaða tónlist fólk hlustar á og ef síminn er tengdur við tölvuna í bílnum getur hún dregið til sín allar mögulegar upplýsingar, s.s. upplýsingar um tengiliði, dagatal og jafnvel vefsögu.“
Ljóst er að framleiðendur safna þessum gögnum og selja til þriðja aðila. „Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að stór hluti bílaframleiðenda stundar það að selja gögn sem verða til við notkun bifreiðanna og eru kaupendurnir t.d. tryggingafyrirtæki og félög sem vilja nota persónuupplýsingar ökumanna í markaðstilgangi,“ útskýrir Björn og bætir við að jafnvel ef gögnin eru sett í þann búning að vera ekki persónugreinanleg, áður en þau eru seld, þá megi oft samkeyra gagnasöfn og t.d. tengja tiltekna aksturshegðun við tiltekinn einstakling, heimili eða þætti. „Við getum t.d. hæglega ímyndað okkur það að ef tryggingafélag falast eftir gögnum um aksturslag ökumanna þriggja mest seldu bifreiðanna á Íslandi þá ætti félagið hægt um við að tengja þessi gögn við ákveðin póstnúmer, aldurshópa eða kyn, og eru þá komin með ágætisgagnapakka sem nota má við ákvörðun iðgjalda.“
Björn bætir við að það hafi komið upp tilvik þar sem framleiðendur brutu með greinilegum hætti gegn friðhelgi einkalífs viðskiptavina sinna. „Þannig urðu t.d. starfsmenn Tesla uppvísir að því fyrir nokkrum árum að deila, sem skemmtiefni sín á milli, upptökum sem myndavélar bílanna höfðu fangað af fólki við ýmsa iðju.“
FIA, alþjóðasamband bifreiðaeigenda- og akstursíþróttafélaga, hefur fylgst náið með þessari þróun og m.a. beitt sér fyrir auknu gagnsæi um gagnasöfnun bifreiða, og að eigendur ökutækja hafi meira að segja um það hvaða gögnum er safnað og hvernig þau eru nýtt. „Flestum þykir eflaust sjálfsagt að bíllinn þeirra safni ákveðnum upplýsingum sem hin ýmsu hjálparkerfi bifreiðarinnar þurfa á að halda og auðvelda framleiðandanum að vakta ástand bifreiðarinnar, en þá á fólk að geta tekið út fyrir sviga gögn sem það sér enga ástæðu til að deila – s.s. símaskránni sinni eða hvaða það hlustar á í útvarpinu. Eins og málum er háttað í dag eru valkostirnir annaðhvort allt eða ekkert, svo að ef eigandinn kýs að aftengja hluta gagnaöflunarinnar þá hætta öll nútímaþægindi um borð að virka,“ segir hann.
„Í sumum tilvikum getur það meira að segja haft áhrif á ábyrgðarskilmálana ef kaupandi bifreiðar vill takmarka aðgang framleiðandans að hvers kyns gögnum, og verksmiðjuábyrgðin veitt með því skilyrði að heimila stanslausa vöktun yfir þráðlausa nettengingu,“ útskýrir Björn og minnir á að í nær öllum nýjum bílum í dag sé símkort, sendir og móttakari sem nýti farsímakerfið til að senda og sækja gögn.
Björn undirstrikar að það megi ekki túlkast sem hræðsluáróður þó að fólk sé vakið til vitundar um þessi mál, og þó að framleiðendur megi margir gera betur þá þjóni gagnaöflunin oft mikilvægu hlutverki og sé ómissandi þáttur af öryggis- og aðstoðarbúnaði nýrra bíla. „En það er af hinu góða að fólk sé meðvitað um öflun og dreifingu þessara gagna og haldi framleiðendum við efnið.“
Til að lágmarka aðgengi óviðkomandi að persónulegum gögnum segir Björn það góða reglu að leyfa ekki aðgang að hverju sem er þegar snjallsíminn er tengdur við tölvukerfi bílsins. Þegar sími er tengdur í fyrsta sinn spyr oft síminn eða bílatölvan hvort bílnum skuli veittur aðgangur að t.d. dagatali og símaskrá, og getur eigandi símans þá bæði valið og hafnað. „Vill fólk að tengingin við símann bjóði bara upp á að hringja eða taka á móti símtölum, eða vilja þau leyfa bílnum að senda skilaboð, skoða tengiliðina, og hafa aðgang að dagbókinni? Verður fólk að nálgast valið með því hugarfari að þegar tölvan í bílnum hefur fengið aðgang að þessum gögnum á annað borð þá munu þau fara á flakk.“
Sumum gæti þótt gagnlegt að velja frekar bifreiðar frá framleiðendum sem gæta hófs í gagnasöfnuninni. „Hugbúnaðarfyrirtækið Mozilla gerði vandaða úttekt á þessum málum í fyrra og af 25 framleiðendum sem teknir voru til skoðunar reyndust allir safna óeðlilega miklu magni persónutengdra gagna og 84% þeirra selja gögnin,“ segir Björn. „Enginn framleiðandi fékk góða einkunn en Renault og Dacia lentu þó í efsta sæti á lista Mozilla fyrir það að gefa eigendum bifreiða kost á að biðja um að gögnunum þeirra verði eytt, en Tesla lenti í neðsta sæti.“
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 16. júlí. Bílablaðið kemur út þriðja þriðjudag hvers mánaðar.