Þýski bílaframleiðandinn Porsche hefur upplýst að fjórða kynslóð sportjeppans Cayenne verði fáanleg 100% rafknúin. Eru prófanir á fyrstu frumgerðum rafmagns-Cayenne vel á veg komnar en Porsche tekur fram að bifreiðin muni áfram fást í tengiltvinn- og bensínútgáfu.
Í tilkynningu segir að nýjar útgáfur Cayenne muni halda í þá eiginleika sem sportjeppinn er þekktur fyrir, s.s. mikla getu í torfæruakstri, framúrskarandi þægindi og góða aksturseiginleika. Oliver Blume, forstjóri Porsche AG, lofar þó að fjórða kynslóðin muni „setja alveg ný viðmið fyrir rafknúna jeppa.“
Sú kynslóð Cayenne sem er í framleiðslu í dag fékk mikla uppfærslu í fyrra og heldur þróunarvinnan áfram, m.a. með tilliti til skilvirkari V8 hreyfils sem framleiddur er í vélaverksmiðju Porsche í Zuffenhausen.
Að sögn Blume ættu 80% af bifreiðum Porsche að vera fáanlegar sem rafbílar árið 2030.
Dulbúnar frumgerðir rafmagns-Cayenne eru þegar komnar á götuna og eins og Porsche er von og vísa verður bifreiðunum ekið nokkrar milljónir kílómetra um allan heim, við alls konar öfgakenndar landslags- og loftslagsaðstæður, svo kaupendur geti stólað á áreiðanleika og endingargæði.
Að sögn Bílabúðar Benna er von á nýrri kynslóð Cayenne til Íslands árið 2026. ai@mbl.is