Nýtt skrímsli mætir til leiks

Þó að bíllinn hafi allt annað útlit en Huracán sést …
Þó að bíllinn hafi allt annað útlit en Huracán sést það langar leiðir hvar Temerario á heima í ættartré Lamborghini. Allt bendir til að bifreiðin sé einstaklega vel heppnuð. Ljósmynd/Lamborghini

Það bar heldur betur til tíðinda í bílaheiminum um helgina þegar ítalski sportbílaframleiðandinn Lamborghini svipti hulunni af nýjum hversdags-sportbíl sem fengið hefur nafnið Temerario.

Reyndar er á mörkunum að kalla Temerario hversdagsbíl, en hann tekur við keflinu af Huracán og segja markaðsmenn Lamborghini að þriðji hver Huracán-eigandi noti bílinn dagsdaglega enda tiltölulega notendavænn ofursportbíll.

Löng hefð er fyrir því að Lamborghini framleiði annars vegar minni sportbíl og hins vegar stærri. Sá stærri er alla jafna tvöfalt dýrari, með tólf strokka vél og vænghurðum, en sá minni hefur hingað til verið með tíu strokka vél, á umtalsvert lægra verði og líka selst í mun fleiri eintökum.

Þannig var Aventador arftaki Murciélago, sem var svo arftaki Diablo, sem tók við af Countach. Á undan Huracán kom Gallardo, þá Jalpa, Silhouette og Urraco.

Setjast nú bæði Aventador og Húracan í helgan stein, eftir annars vegar 10 og hins vegar 11 ára sigurgöngu, og í staðinn koma Revuelto, sem kynntur var til leiks í fyrra, og svo Temerario.

Bæði sýnileg og ósýnileg loftinntök og vindskeiðar móta útlitið.
Bæði sýnileg og ósýnileg loftinntök og vindskeiðar móta útlitið.

Færri strokkar en meiri kraftur

Það kom í sjálfu sér ekki á óvart að Temerario er með ögn minni vél en Húracan en strokkunum hefur verið fækkað úr 10 í 8, og búið að bæta við forþjöppum. Þá er það tímanna tákn að Temerario er tengiltvinnbíll með þremur rafmótorum og saman skaffa 4,0 lítra vélin og rafmótorarnir 920 hestöfl, sem er nærri 50% meira afl en Huracán bjó yfir. Var vélin hönnuð sérstaklega og smíðuð fyrir þennan bíl, ólíkt 10 strokka vélinni sem Huracán fékk að láni frá Audi. Þá lofa verkfræðingarnir suður í Sant'Agata Bolognese að vélin ráði við allt að 11.000 snúninga á mínútu.

Hámarkshraði Temerario er 340 km/klst og fer bíllinn úr kyrrstöðu í 100 km/klst á 2,7 sekúndum en ökutækið vegur 1.690 kg.

Auk þess að bæta við kraftinn hefur Lamborghini gert nýja bílinn notendavænni og er t.d. búið að stækka farþegarýmið svo að betur fari um hávaxna ökumenn. Á ekki að vera þröngt um 198 cm himnalengjur og það jafnvel þótt þeir hafi kappaksturshjálm á höfðinu. Undir húddinu er pláss fyrir 112 lítra af farangri, eða um það bil tvær ferðatöskur í handfarangursstærð, og einnig er búið að stækka geymsluplássið á bak við sætin.

Lamborghini hefur ekki greint frá því hvað Temerario mun kosta en bílaspekúlantar áætla að verðmiðinn verði í kringum 300.000 dali kominn beint úr verksmiðjunni, eða jafnvirði rúmlega 41 milljónar króna, en þá er eftir að bæta við innflutningsgjöldum. ai@mbl.is

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins þriðjudaginn 20. ágúst

Takið eftir að það sést vel í afturdekkin, líkt og …
Takið eftir að það sést vel í afturdekkin, líkt og á mótorhjóli.
Þess var gætt að vel færi um hávaxna ökumenn.
Þess var gætt að vel færi um hávaxna ökumenn.
Sexhyrnd form setja svip á farþegarýmið.
Sexhyrnd form setja svip á farþegarýmið.
Vetrardekk verða í boði fyrir þá sem þurfa á þeim …
Vetrardekk verða í boði fyrir þá sem þurfa á þeim að halda.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: