Bílaumboðið Ísband efnir til viðburðar á laugardag þar sem „tvær goðsagnir í heimi jeppa“ verða frumsýndar.
Mikið verður um dýrðir í sýningarsalnum að Þverholti 6 í Mosfellsbæ, á milli 12 og 16, en þar fá gestir að kynnast Jeep Grand Cherokee sem nú birtist endurfæddur sem tengiltvinnbíll. Þá verður einnig hægt að berja augum nýja útfærslu á Jeep Wrangler Rubicon.
Í tilkynningu kemur fram að Grand Cherokee sé núna fáanlegur í fyrsta skipti sem tengiltvinnbíll, en bifreiðin er hlaðin lúxus-staðalbúnaði og með stærra farangursrými en áður – eða nóg pláss fyrir fjögur golfsett auk farangurs. Jeppinn, sem hefur fengið ágætis andlitslyftingu, þykir hafa framúrskarandi aksturseiginleika en hann er búinn stillanlegri loftpúðafjöðrun.
Jeep Wranger Rubicon skartar nú nýjum framenda og nýju mælaborði með 12 tommu upplýsinga- og snertiskjá. Sætin hafa einnig fengið nýtt útlit, sem og felgurnar, en jeppinn er tengdur snjallsímaforriti sem m.a. forhitar bílinn, kannar stöðu á rafhlöðu og eldsneyti, opnar bifreiðina og læsir henni, og getur sýnt staðsetningu ökutækisins.
Á sýningu laugardagsins má einnig sjá breytta Wrangler Rubicon á á 35, 37 og 40 tommu dekkjum en breytingaverkstæði Ísbands er sérhæft í breytingum á bæði Jeep og RAM pallbílum.