Sporið minnkar með lífdísilolíu

Páll Örn Líndal hjá N1 á dælustöð í Fossvogi.
Páll Örn Líndal hjá N1 á dælustöð í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Kolefnisspor er 90% minna af lífrænni dísilolíu en hefðbundinni, þeirri sem nú er byrjað að selja þjónustustöð N1 í Fossvogi í Reykjavík. „Við höfum verið að fikra okkur áfram í þessu verkefni á síðustu vikum. Hjá mörgum fyrirtækjum er vilji til þess að nota lífræna dísilolíu á bílaflotann, enda getur slíkt vegið talsvert í umhverfisbókhaldi,“ segir Páll Örn Líndal, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1.

Dísilolían (VLO) sem nú fæst á Fossvogsstöð er 100% lífræn, framleidd af Neste. Eiginleikar eru hinir sömu og í hefðbundnu jarðefnaeldsneyti, nema hvað hún er léttari vegna færri aukaefna á borð við brennistein og fleiri efni í hefðbundinni olíu. Mest munar þó um hve mikið kolefnissporið minnkar.

Lífræn dísilolía er unnin úr lífrænum úrgangsefnum, s.s. notaðri djúpsteikingarolíu, úrgangsfitu, jurtaolíum og fleiru slíku. Þessi efni eru unnin sérstaklega og úr því verður til hrein dísilolía. Lífræn dísilolía er gerð fyrir allar hefðbundnar dísilvélar. Mikilvægt er hins vegar að gengið sé úr skugga um að framleiðandi viðkomandi vélar hafi heimilað notkun lífræns dísils, en á eldsneytisloki eða í handbók bílsins á að vera listi yfir eldsneytið sem hentar.

Með reynslu úr Fossvogi hefst sala á lífrænni dísilolíu á fleiri stöðvum N1. „Við höfðum tankapláss á þessari stöð og því lá beint við að byrja hér. Svo færum við okkur á aðrar stöðvar,“ segir Páll Örn. Getur þess ennfremur að um komandi áramót verði, skv. ákvörðun stjórnvalda, tekið upp samræmt kílómetragjald fyrir akstur dísilbíla. Með því falli út að fyrirtæki geti keypt litaða dísilolíu á lægra verði en annars væri. Nú verði slík olía öll í sama lit, en hægt að kaupa lífrænan dísil sem nú kostar 324,90 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: