Veturinn er handan við hornið og ekki seinna vænna að huga að dekkjamálunum. Bjarni Arnarson er framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Kletti og segir hann að landsmenn virðist orðnir mun skipulagðari þegar kemur að dekkjaskiptum í upphafi vetrar og að betri regla sé á hlutunum þegar vetrardekkjatímabilið gengur í garð: „Það var mikið framfaraskref hjá okkur og mörgum öðrum dekkjaverkstæðum þegar byrjað var að bjóða upp á tímapantanir. Fólk getur þá einfaldlega pantað lausan tíma á netinu og sleppur við að bíða í langri röð eftir þjónustu. Þetta þýðir að minni tími fer í þetta verkefni en við gætum þess alltaf að nægilegt svigrúm sé á verkstæðunum til að tryggja að tímapantanirnar standist.“
Þá léttir það líka störfin á verkstæðinu og einfaldar dekkjastússið til muna að fólk nýtir sér í vaxandi mæli þjónustu dekkjahótela. „Viðskiptavinirnir kunna að meta þau þægindi að þurfa ekki að geyma dekkin sín sjálfir. Það er ekki gaman að burðast með óhrein dekkin heim og skemma jafnvel innréttinguna í bílnum, og svo er það æ algengara að fjölbýlishús setji það sem reglu að fólki sé bannað að geyma dekk í eigin geymslum,“ útskýrir Bjarni.
Dekkin eru geymd í sérstökum dekkja-rekkum og verða ekki fyrir neinu hnjaski á meðan þau eru á hótelinu, og ef dekkin eru geymd á felgum þá er þess gætt að hafa þau jafnvægisstillt og tilbúin þegar eigandinn kemur í dekkjaskipti sem styttir afgreiðslutímann til muna. Reiknast Bjarna til að rétt innan við fjórðungur viðskiptavina dekkjahótels Kletts geymi dekkin sín á felgum og að hópurinn fari vaxandi.
Mikil vöruþróun á sér stað hjá dekkjaframleiðendum og segir Bjarni að um þessar mundir sé áherslan ekki síst á að framleiða dekk sem henti betur þörfum raf- og tengiltvinnbíla. „Þessar bifreiðar eru hljóðlátar og gera ökumenn æ ríkari kröfur um að dekkin gefi frá sér sem minnstan hávaða í akstri,“ útskýrir hann og bætir við að samkvæmt Evrópureglum fái ný dekk í dag einkunnagjöf fyrir ýmsa eiginleika til að auðvelda kaupendum að leggja mat á þætti á borð við hemlunargetu og hve mikið veghljóð berst frá dekkjunum.
Þá kalla rafmagnsbílar iðulega á dekk með annars konar eiginleika en hefðbundnir brunahreyfilsbílar þurfa enda fyrrnefndu bílarnir þyngri og aflmeiri. Eru rafmagnsbílar alla jafna á stærri og breiðari dekkjum og ekki óalgengt að dekkin séu ögn dýrari fyrir vikið.
Af þróun vetrardekkja er það annars að frétta að framleiðendur hafa verið að gera áhugaverðar tilraunir með nýja og betri nagla. Bílablaðið hefur áður fjallað um að með því að gera naglana úr léttari efnum hafi framleiðendum tekist að minnka þær slitskemmdir sem naglarnir valda þegar vegir eru auðir og þurrir. „Við sjáum núna framhald á þessari þróun s.s. með sporöskjulaga nöglum og stefnuvirkum nöglum,“ segir Bjarni og bætir við að fátt virðist geta komið í stað góðra negldra vetrardekkja til að takast á við hálku og erfiða færð. „Reglulega skjóta upp kollinum „patentlausnir“ sem oftar en ekki reynast hafa takmarkað notagildi og henta kannski mjög vel við tilteknar aðstæður en geta verið lélegar við önnur skilyrði.“
Bjarni segir að við val á dekkjum sé upplagt að leita ráða hjá fagmanni og gera einfalda þarfagreiningu. „Við ráðleggjum fólki að vera á vetrardekkjum að vetri til og skipta yfir á sumardekk að sumri til en svokölluð heilsársdekk standa ekki undir nafni og verða aldrei jafngóð að vetri og góð vetrardekk né jafngóð að sumri og vönduð sumardekk.“
Þá eru aðstæður á Íslandi þannig að nagladekkin þykja ómissandi ef aka þarf út fyrir höfuðborgarsvæðið. Segir Bjarni að þeir sem sjá fram á að aka eingöngu innanbæjar eigi að geta sleppt nöglunum. „En ef fólk þarf t.d. að mæta mjög snemma til vinnu eða kemur alla jafna heim seint á kvöldin þá getur það átt von á að meiri hálka sé á vegum en um miðjan dag og verða dekkin að taka mið af því.“
Það er drungi yfir hagkerfinu í augnablikinu og víða er þröngt í búi, en Bjarni segir að flestir eigi að geta fundið dekk í verðflokki við sitt hæfi. Verðbólga plagar landann og sumum gæti þótt það freistandi að reyna að spara í dekkjakaupum en Bjarni segir það þá frekar eiga við um sumardekkjakaupin og að fólk sé sjaldnar reiðubúið að gefa nokkurn afslátt af öryggi og gæðum þeirra dekkja sem nota þarf yfir vetrarmánuðina.
„Það sem fólk þarf helst að gæta sín á er að dýrari dekkin hafa ekki endilega lengri líftíma heldur halda þau eiginleikum sínum lengur og betur. Það má finna mikið af ódýrum dekkjum sem eru kannski góð rétt á meðan þau eru ný, en svo tapa þau eiginleikum sínum hratt.“
Aftur minnir Bjarni á þarfagreininguna og segir hann að yngstu ökumennirnir þurfi oft á bestu dekkjunum að halda. „Það gæti virst algjört þjóðráð, ef unglingurinn á heimilinu er kominn á ódýran bíl, að eyða sem minnstu í dekkjakaupin,“ segir hann. „En þá verður að muna að um óreyndan ökumann er að ræða sem þarf sennilega oft að leggja af stað snemma dags til að komast í skólann og getur verið á ferðinni langt fram á kvöld með vinum sínum, og þá vissara að hafa góð dekk með miklu gripi undir bílnum.“
Athugi loftþrýstinginn og hreinsi mynstrið
Ekki eru til neinar þumalputtareglur um hversu lengi dekk endast og segir Bjarni að endingartíminn ráðist m.a. af aksturslagi ökumanns, þyngd bifreiðar, jafnvægisstillingu dekkja, hjólastillingu og loftþrýstingi.
Rétt umgengni getur þó hjálpað til að lengja líftíma dekkjanna og ráðleggur Bjarni m.a. að mæla loftþrýstinginn á a.m.k. 3-4 mánaða fresti. „Nær allir nýir bílar eru með innbyggða mæla í dekkjunum en þeir vara oft ekki við nema þegar þrýstingurinn er of lágur. Svo er upplagt að koma því upp í vana að gera sjónskoðun á dekkjunum endrum og sinnum og tekur fólk þá yfirleitt eftir því ef eitthvað virðist í ólagi eða ójafnvægi.“
Loks má ekki gleyma því að óhreinindi geta safnast upp í mynstrinu á dekkjunum og minnkað gripið og ætti helst að hreinsa dekkin nokkrum sinnum yfir vetrarmánuðina. „Má t.d. fara þá leið að úða tjöruhreinsi á dekkin og skola þau á sama tíma og bíllinn er þveginn og bónaður. Það þarf bara að gæta þess að nota ekki of sterkan tjöruhreinsi og láta hann ekki hvíla lengi á dekkjunum til að skemma ekki gúmmíblönduna.“