Tesla lækkar verð um allt að 400.000 kr.

Tesla Model 3 Long Range ætti að ráða við að …
Tesla Model 3 Long Range ætti að ráða við að aka alla leið frá Reykjavík til Neskaupstaðar.

Tesla á Íslandi hefur lækkað verðin á Model 3 og Model Y og kynnir jafnframt til sögunnar Model 3 Long Range útgáfu með 702 km drægni.

Í tilkynningu frá Tesla segir að nú megi eignast bifreið frá fyrirtækinu á 5.090.000 kr. þegar búið er að draga frá styrk frá Orkusjóði.

Nánar tiltekið er það Model 3 með afturhjóladrifi sem selst á þessu verði en án styrks kostar bíllinn 5.990.000 kr. Bifreiðin kostaði áður 6.390.000 kr. og hefur því lækkað í verði um 400.000 kr. eða 6%.

Aðrar gerðir lækka í verði

Model 3 Long Range, afturhjóladrifinn, kostar hins vegar 5.790.000 kr. þegar styrkur hefur verið dreginn frá kaupverðinu, en án styrksins kostar bifreiðin 6.690.000 kr.

Aðrar gerðir Model 3 og Model Y lækka í verði um 1-3% eða á bilinu 108.000 til 213.000 kr.

Í tilkynningu kemur fram að Model 3 Long Range sé sparneytnasta bifreiðin sem Tesla hefur framleitt til þessa en bíllinn þarf 12,5 kWst af raforku fyrir hverja 100 ekna kílómetra. Tesla nefnir til samanburðar að bíllinn geti ekið heilan kílómetra með sömu orku og þarf til að hita frosna máltíð í örbylgjuofni.

Til stendur að hefja afhendingu á Model 3 Long Range á Evrópumarkaði í nóvember.

mbl.is