Mítra tekur við Bridgestone og Firestone

Ragnar Veigar Guðmundsson framkvæmdastjóri Mítra segir fyrstu viðtökur hafa verið …
Ragnar Veigar Guðmundsson framkvæmdastjóri Mítra segir fyrstu viðtökur hafa verið góðar.

Dekkjaheildsalan Mítra við Tunguháls, systurfélag BL og dótturfélag Eggs, hefur tekið við umboðinu fyrir japanska hjólbarðaframleiðandann Bridgestone á Íslandi og segir í tilkynningu frá félaginu að fyrstu gámarnir séu á leið til landsins með úrval Bridgestone og Firestone dekkja. Félagið segir jafnframt að dekkjaúrvalið muni aukast enn frekar á komandi vikum og mánuðum.

Bridgestone er einn af virtustu risum dekkjamarkaðarins en fyrirtækið var stofnað í Japan árið 1931 og starfa þar núna um 130.000 manns á 150 starfsstöðvum víðs vegar um heiminn. Ekki er nóg með að Bridgestone framleiði hjólbarða fyrir bifreiðar heldur selur félagið einnig dekk fyrir vinnuvélar og flugvélar.

Í tilkynningu félagsins segir að Bridgestone leggi mikla áherslu á að lágmarka vistspor starfseminnar og sé fremst meðal jafningja þegar kemur að þróun hjólbarða. Hafa dekk frá Bridgestone iðulega fengið bestu einkunn í óháðum gæðaprófunum.

„Við erum að kynna nýju vöruna fyrir viðskiptavinum okkar um land allt þessa dagana og viðtökurnar hafa verið mjög góðar, annars vegar vegna þess að nú erum við að stórauka úrvalið með fleiri gerðum mismunandi dekkja frá bæði Bridgestone og Firestone, og einnig vegna þess að stór hópur bíleigenda þekkir Bridgestone,“ segir Ragnar Veigar Guðmundsson framkvæmdastjóri Mítra.

mbl.is