Myndskeið: Land Cruiser 250 frumsýndur á laugardag

Óhætt er að reikna með miklum áhuga á frumsýningu Land Cruiser 250 á laugardag en jeppinn verður til sýnis frá kl. 12 til 16 hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, í Reykjanesbæ, á Selfossi og á Akureyri.

Bílablað Morgunblaðsins fékk að reynsluaka Land Cruiser 250 fyrr á árinu og í umfjöllun blaðsins kom meðal annars fram að jeppinn ætti ekki í nokkrum vanda með að takast á við krefjandi aðstæður.

Lúxusinn er orðinn meiri en hann var áður. Búið er að endurhanna mælaborðið þannig að allar stillingar eru mjög aðgengilegar og gluggarnir eru stærri en í fyrri útgáfum þannig að maður sér vel út allan hringinn. Hliðarspeglar eru stórir sem gefa manni góða yfirsýn en skapa þó ekki vindhljóð í akstri. Hvort sem ekið er innanbæjar eða út á þjóðvegi er bíllinn þægilegur, með fínan beygjuradíus og vart þarf að taka fram að hann er búinn öllum þeim öryggis- og aðstoðarfídusum sem gerðar eru kröfur um í nýjum bílum í dag. Með öðrum orðum, það er hægt að nota hann í miðbæ Reykjavíkur og leggja honum í þröng stæði, en það er líka hægt að njóta þess að aka honum hratt og greiðlega út á þjóðvegi,“ sagði í umsögn blaðamanns.

„Maður veltir því oft upp hvað það er sem skiptir mestu máli þegar kemur að bílum. Fyrir suma er það merkið sjálft, fyrir aðra er það notagildið, verðið, gæðin, þægindin o.s.frv. Það skiptir væntanlega máli að geta notað bílinn innanbæjar með hentugum hætti. Sem fyrr segir á það við um Land Cruiser 250. Það sama á við um akstur á þjóðvegi,“ skrifaði blaðamaður. „Það skiptir suma máli að hafa kost á því að geta keyrt utan þjóðvegar, hvort sem er á sveitavegum eða í meira krefjandi aðstæðum. Það er óhætt að segja að þessi bíll mæti þeim kröfum. Síðan eru það þeir sem vilja bara Land Cruiser og helst ekkert annað. Þar mætir nýi bíllinn öllum helstu kröfum.“

Land Cruiser 250 við Einhyrning á fallegum haustdegi.
Land Cruiser 250 við Einhyrning á fallegum haustdegi. Ljósmynd/Björn Steinbekk/Toyota
mbl.is