Bento og Duo láta ekki mikið fyrir sér fara

Eins og sést er Duo svipaður Twizy að stærð og …
Eins og sést er Duo svipaður Twizy að stærð og lögun. Ljósmynd/Mobilize

Franskir bílaframleiðendur mega eiga það að þeir kunna að hugsa út fyrir boxið. Renault braut blað á sínum tíma með litla rafmagnaða farartækinu Renault Twizy sem rann út af færibandinu árið 2012 en fyrr á þessu ári var tilkynnt að framleiðslu Twizy yrði hætt í september.

Nú hefur arftakinn verið kynntur undir merkjum Mobilize, dótturfyrirtækis Renault, og hefur hulunni verið svipt bæði af tveggja sæta örbílnum Duo og smásendibílnum Bento en framleiðsla þeirra á að fara á fullt á næsta ári.

Líkt og örbifreiðin Ami, sem Citroën framleiðir, flokkast Duo og Bento sem fjórhjól og hafa lágan hámarkshraða, en fyrir vikið þurfa notendur þessara farartækja ekki endilega að hafa bílpróf – a.m.k. í sumum löndum.

Bento er, eins og nafnið er vísbending um, með box …
Bento er, eins og nafnið er vísbending um, með box að aftan. Ljósmynd/Mobilize

Í Duo er ökumannssætið í miðju farartækinu og lítil sylla fyrir farþega þar fyrir aftan. Bento er bara með pláss fyrir ökumann en aftast á farartækinu er n.k. skápur sem er einn rúmmetri að stærð og ætti að henta til að skutlast með smávarning á milli staða.

Bæði Duo og Bento eru rafdrifin, með á bilinu 150 til 160 km drægni á hleðslunni, og er uppgefinn hámarkshraði nærri 75 km/klst.

Ekki fer mikið fyrir Duo og Bento á götunum því ökutækin eru ekki nema í kringum 2,5 metrar á lengd en þökk sé vænghurðum ætti að vera leikur einn að leggja þessum farartækjum í þrengstu stæði. Þá var mikil áhersla lögð á að hafa framleiðsluna umhverfisvæna og voru t.d. notuð 40% endurunnin efni við smíðina og farartækin 95% endurvinnanleg. ai@mbl.is

Pláss er fyrir nettan farþega í litlu sæti fyrir aftan …
Pláss er fyrir nettan farþega í litlu sæti fyrir aftan ökumann. Ljósmynd/Mobilize
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: