Bílaumboðið Askja efndi í síðustu viku til frumsýningar á nýjum alrafmögnuðum Mercedes-Benz G-Class. Var bíllinn afhjúpaður bæði á fimmtudag og laugardag en fyrri viðburðurinn var sérstaklega ætlaður dyggustu aðdáendum þessa einstaka jeppa.
Í tilkynningu frá umboðinu er haft eftir Jóni Trausta Ólafssyni, forstjóra Öskju, að G-Class hafi frá upphafi verið tákn um styrk, glæsileika og óstöðvandi getu. „Nýr G-580 með EQ-tækni heldur áfram að skrifa þá sögu með framúrskarandi rafmagnstækni og óviðjafnanlegri torfærugetu.“
G-580 með EQ-tækni er drifinn áfram af fjórum rafmótorum – einum á hverju hjóli – sem saman mynda 587 hestöfl. Ekki vantar snerpuna í þennan kraftalega jeppa því hann fer úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á 4,7 sekúndum og er uppgefin drægni allt að 473 km með 116 kWst rafhlöðu.
Ferkantaða G-Class-útlitið og hönnunin heldur sér, en rafmagnsmótorarnir bjóða upp á skemmtilega nýja eiginleika á borð við „G-turn“ sem leyfir bílnum að snúast 360° á punktinum þar sem hann stendur. „G-Steering“ minnkar beygjuradíus jeppans og á að gera G-580 einkar góðan í torfærum. Vilji ökumenn takast á við krefjandi aðstæður hefur rafmagnaði G-Classinn 85 cm vaðdýpt.