Næstkomandi laugardag verður efnt til sýningar hjá Kia á Krókhálsi 13 og hjá umboðsaðilum Kia um allt land. Tilefnið er koma rafjeppans EV3 til landsins, en bifreiðin lenti á dögunum í öðru sæti í valinu á bíl ársins í Evrópu 2025.
EV3 fellur í flokk borgarjepplinga en er búinn sömu tækni og flaggskipið Kia EV9 sem hefur rakað til sín verðlaunum og var t.d. í fyrra hlutskarpastur í keppninni World Car of the Year.
Í tilkynningu kemur fram að EV3 hefur allt að 605 km drægni og tekur 31 mínútu að fylla á rafhlöðuna úr 10% í 80%. Farangursrýmið er 460 l að stærð og skartar farþegarýmið m.a. þreföldum breiðskjá.
Þá er EV3 fyrsta bifreiðin frá Kia sem er búin gervigreind, Kia AI Assistant. Tæknin á að geta skilið tungumálið vel og átt eðlileg samtöl við notendur, og t.d. aðstoðað við skipulag á ferðalagi og leiðbeint notendum til að fá sem mest út úr ferðinni.
Kristmann Dagsson, sölustjóri Kia á Íslandi, segir EV3 vera af þeirri stærð sem Íslendingum hugnast best og haki við öll box þegar kemur að drægni, tækni, útliti, rými og gæðum. „EV3 er einnig með V2L sem þýðir að hann getur gefið frá sér orku og þannig hlaðið önnur raftæki eins og t.d. rafhjól, hitablásara eða kaffivél.“
Frumsýning EV3 stendur yfir frá klukkan 12 til 16 á laugardag í sýningarsalnum á Krókhálsi og á sama tíma hjá umboðsaðilum á Akranesi, Akureyri, Keflavík, Egilsstöðum og Selfossi.