Gunnar Guðmundsson hafði lengi leitað sér að verklegu fjallahjólhýsi og rann að lokum upp fyrir honum að gat væri á íslenska markaðinum: „Leitin hafði staðið yfir í mörg ár og er ég búinn að eiga alla flóruna: tjaldvagn, fellihýsi og hjólhýsi, en alltaf langað til að geta farið lengra á ferðalögum mínum um landið,“ segir hann. „Svo fór ég að leita á netinu og fann Crawler-hjólhýsin og heimsótti útibú þeirra í Þýskalandi. Leist mér svo vel á Crawler að ég lét á það reyna að fá umboðið og gekk það eftir svo að 2021 stofnaði ég fyrirtækið Tarandus ehf. í félagi við þrjá vini mína.“
Eins og sést á myndunum sem fylgja greininni eru Crawler-hjólhýsin af verklegu sortinni en þau eru smíðuð í Tyrklandi og hvert einasta hjólhýsi handsmíðað í samræmi við óskir kaupandans. „Gæðin sjást m.a. á því hve ryk- og vatnsþétt þessi hjólhýsi eru en þau eru líka vel einangruð og húðuð að innan með 2 mm lagi af efni sem veitir jafnmikla hita- og kuldaeinangrun og 2 cm af ull. Þessu til viðbótar eru einangrandi ArmaFlex-mottur í öllum veggjum og þaki,“ útskýrir Gunnar. „Þessi hjólhýsi fjaðra vel en fjöðrunin skiptir miklu fyrir getu hjólhýsisins til að komast yfir holur og ófærð.“
Tarandus ehf. flytur líka inn pallhýsi, topptjöld og húsbílakassa frá Crawler en fjallahjólhýsin eru í aðalhlutverki og í boði eru Batu 535i, sem er stærri gerðin, og TRC 458i sem er minni gerðin. Gunnar segir minna hjólhýsið heppilegra fyrir marga því auðveldara sé að draga það og léttara að skrönglast eftir erfiðum vegaslóðum með nettara hjólhýsi í eftirdragi. „Fólkið sem kemur til okkar hefur gaman af að skoða landið en langar að gera meira, ferðast lengra upp á hálendið en halda samt í ákveðinn „hálendislúxus“, og kann að meta að hafa t.d. salerni, eldhús og góðan hitara,“ segir Gunnar og bætir við að Crawler-hjólhýsin ráði alveg við að þvera ár. „Ég er oft spurður að þessu og er svarið að þar sem jeppinn kemst á hjólhýsið að komast líka.“
Batu 535i er 1.700 kg en TRC 458i 900 kg að þyngd og rúmast 5-6 manns í Batu á meðan fjórir til fimm geta sofið í TRC. „Aðbúnaðurinn um borð er meira eða minna sá sami nema í Batu er plássið meira,“ útskýrir Gunnar.
Gaman er að segja frá því að flestir íslenskir kaupendur Crawler-fjallahjólhýsanna vilja fá næstum allan þann aukabúnað sem í boði er og liggur við að vanti bara vínkælinn: „Velja má á milli dísil- og gashitara og taka flestir gasið. Þá má velja um þrenns konar gerðir af ísskápum og einnig má panta sérstakar hitamottur sem komið er fyrir nálægt vatnslögnum svo að ekki frjósi í lögnunum hyggist fólk nota hjólhýsið að vetri til. Hægt er að fá stóra sólarrafhlöðu á þakið, 325 vött, og er það nóg til að gera hjólhýsið alveg sjálfbært um raforku en val er um tvenns konar stærðir af rafhlöðu um borð.“
Spurður hvort það megi ekki hreinlega búa í Crawler-hjólhýsi árið um kring segir Gunnar að það megi haga skipulagi hjólhýsisins nokkuð eftir óskum kaupandans og t.d. hægt að fækka svefnplássum, stækka eldhúsaðstöðuna eða gera baðherbergið rýmra ef fólk vill. „Við höfum fengið til okkar fólk sem er að leita að heppilegum kosti til að gista í einhvern tíma t.d. til að sinna rekstri úti á landi yfir sumarið. Crawler-fjallahjólhýsi getur jafnvel komið til greina fyrir fólk sem vill bjóða upp á gistiaðstöðu og er þá á við lítinn bústað.“
Gunnar segir ekki erfitt eða flókið að umgangst Crawler-hjólhýsin. Á ferðalögum fólks um landið verði að gæta að því að leggja ekki á eignarlóðum eða -landi án leyfis, og vitaskuld sé nóg af tjaldstæðum þar sem tekið er vel á móti hjólhýsum. Einnig ber að hafa í huga að ekki er leyfilegt að aka utan vegar eða slóða, og skal ferðalangur ávallt hafa verndun náttúru landsins að leiðarljósi. „Vatnstankurinn er mjög stór, 115 lítrar, og hreinlega hægt að fylla á hann í næsta læk, en losa þarf úr klósettunum á þar til gerðum stöðum og eru t.d. margar bensínstöðvar og tjaldstæði með móttökuaðstöðu fyrir þann úrgang.“
Best er að geyma hjólhýsið innanhúss ef því er lagt yfir veturinn, og enn betra ef geymslan er upphituð. „Einnig er auðvitað hægt að geyma hjólhýsið úti, en það verður að tæma vatnslagnirnar til að forðast frostskemmdir en sumir fara þá leið að bæta á kerfið frostlegi sem ætlaður er til slíkrar notkunar,“ segir Gunnar. „Svo þarf að tryggja hjólhýsið en engin sérstök opinber gjöld fylgja þessari eign.“
Gunnar minnir á að það sé líka gott að passa upp á öryggið og fjárfesti hann t.d. sjálfur í þar til gerðu beisli sem tryggir að óviðkomandi geti ekki fest hjólhýsið hans á bíl og dregið af stað. „Sömu fjármögnunarleiðir eru í boði og fyrir bílakaup, bæði hvað varðar lánshlutfall og lánstíma, en það er allur gangur á því hvort viðskiptavinir okkar kjósa að fjármagna kaupin eða hreinlega staðgreiða.“
Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins þriðjudaginn 21. janúar.